Það er hagstætt fyrir Íslendinga að taka upp evru og hægt er að gera slíkt án aðildar að ESB. Sjálfstæðum gjaldmiðli í jafn litlu landi og Íslandi fylgir umtalsverður fórnarkostnaður og ávinningur sjálfstæðrar peningastefnu er mun minni en kostnaðurinn sem henni fylgir. Þetta kom fram á umræðufundi SA um gjaldmiðilsmál sem fram fór fimmtudaginn 17. janúar á Hótel Loftleiðum, segir í frétt frá Samtökum Atvinnulífsins.

Upptaka evru er eðlilegt framhald af alþjóðavæðingu landsins og yki milliríkjaviðskipti, samkeppni og stöðugleika, segir í fréttinni.  Þar segir að peningalegt sjálfstæði þjóðarinnar með íslensku krónuna er hins vegar skynvilla þar sem sveiflur koma að mestu að utan.

Frummælendur voru Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies, Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og Guðmundur Magnússon, prófessor emeritus og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Kynningar frummælenda má nú nálgast á vef Samtaka atvinnulífsins.