Sænska verslanakeðjan Lindex fagnar um þessar mundir fimm ára afmæli á íslenskum markaði. Í tilefni af því var á dögunum haldin afmælishátíð í verslunum í Smáralind, Kringlunni og Glerártorgi þangað sem 10.000 manns lögðu leið sína. Fjöldi gesta minnir um margt á þær viðtökur sem verslunin fékk þegar hún opnaði fyrst í Smáralind á sínum tíma en neyddist fljótlega til að loka aftur í stutta stund þegar lager fyrirtækisins kláraðist. Að sögn Lóu Dagbjartar Kristjánsdóttur og Alberts Þórs Magnússonar, eigenda Lindex á Íslandi, hefur gengi fyrirtækisins verið framar þeirra björtustu vonum, en þau reka í dag fimm verslanir á þremurstöðum.

Þrátt fyrir boðaða komu H&M á markaðinn eru þau hvergi bangin heldur segjast þvert á móti fagna komu hins risastóra samkeppnisaðila sem mun m.a. koma til með að opna stóra verslun í Smáralind þar sem nú er verslunin Debenhams.

Ekki sérstaklega fagmannlega unnið ráðningarferli.

Nú er uppgangur í viðskiptalífinu og þá er algengt að starfsfólk færi sig til í starfi. Hafið þið fundið fyrir aukinni starfsmannaveltu?

„Ég myndi segja að það hafi komist heilmikil ró á starfsmannamál okkar síðustu ár. Þegar við vorum að byrja auglýstum við í upphafi eftir starfsfólki og það komu fullt af umsóknum. Við tókum okkur svo góðan tíma í að meta umsóknirnar og réðum svo í kjölfarið þá átta hæfustu eftir að hafa lagt mikla vinnu í ráðningarferlið. Þegar opnunin fór hins vegar fram úr öllum væntingum þá neyddumst við til að ráða fólk á staðnum. Við þurftum að fara úr 10 starfsmönnum upp í 50 á nokkrum dögum og það verður að viðurkennast að það var ekkert sérstaklega fagmannlega unnið ráðningarferli.

Sem dæmi má nefna að ein sem vinnur núna á skrifstofunni hjá okkur kom einmitt og sótti um vinnu þegar allt var brjálað og ég sagði bara: „já, þú ert ráðin, farðu á kassann þarna og byrjaðu að afgreiða.“ Í upphafi þurftum við þannig að finna okkar takt á sama tíma og það var mikið stress og hröð uppbygging. Núna erum við aftur á móti komin með ofboðslega mikið af góðu fólki sem er búið að vera með fyrirtækinu frá upphafi og hefur upplifað tímana tvenna með okkur,“ segir Lóa.

„Við fórum úr 40 starfsmönnum í 130 á hálfsárs tímabili og því er óhætt að segja að vöxturinn hafi verið mjög hraður og þá stendur upp á okkur að ferlar og þjálfun starfsfólks og annað slíkt sé mjög skýr. Það er staðreynd að það tekur nýja verslun um 18 mánuði að ná fletinum sem þú ert raunverulega að vinna með og ég held að það sé ekki óeðlilegt að starfsmannaveltan sé alltaf mest í byrjun. Eftir standa síðan þeir sem ætla sér að vera með þér til framtíðar. Núna eru t.d. liðnir 24 mánuðir síðan við opnuðum verslanirnar í Kringlunni og þar hefur myndast rosalega góður kjarni starfsfólks sem allt hrekkur af. Fyrir það erum við gríðarlega þakklát,“ segir Albert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella hlekkinn Tölublað.