Orri Hauksson hefur gegnt starfi forstjóra Símasamstæð­unnar frá októbermánuði 2013. Þar áður gegndi hann ýmsum stjórnunarstöðum, meðal annars sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans, fjárfestingarstjóri hjá Novator og loks framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins áður en hann greip um stjórnartaumana hjá Símasamstæðunni. Nokkrum mánuðum síðar stýrði hann einnig Símanum sjálfum við sameiningu hans og móðurfélagsins. Hann er verkfræðingur sem fyrir þrettán árum var ráðinn til að stýra þróunarsviði Símans.

„Síðan æxlaðist það eins með mig og marga hjá Símanum. Við förum tímabundið til annarra starfa en við komum alltaf aftur. Síminn er einfaldlega of spennandi og lifandi fyrirtæki, öldungur og frumkvöðull í senn, að það er erfitt að slíta sig varanlega frá,“ segir Orri.

Hvaða breytingar hafa átt sér stað hjá Símanum eftir að þú tókst við keflinu sem forstjóri?

„Frá árinu 2014 hefur átt sér stað umfangsmikil einföldun og hagræðing með sameiningu félaga og sölu dótturfélaga. Rekstur Símans og Skipta var sameinaður undir nafni Símans til að auka rekstrarhagkvæmni og eyða tví­verknaði. Fækkaði yfirstjórnendum til að mynda úr fjórtán í sjö. Síðan sameinuðust Síminn og Skjárinn. Öll starfsemi Skjásins og rekstur á sviði miðlunar og afþreyingar færðist til Símans og allt sem bar Skjásheiti varð að Síma vöru.

Á þessu ári einu og sér hafa síðan átt sér stað miklar breytingar. Við höfum selt tvö dótturfélög, upplýsingatæknifyrirtækin Talentu og Staka Automation, útvarpsstöðvarnar K100 og Retró, sem og hlut Símans í hugbúnaðarfyrirtækinu Trackwell. Þessum félögum var betur fyrir komið í höndum annarra fyrirtækja. Síminn fækkaði leigufermetrum um 4.000 og þá fækkaði starfsfólki Símans sjálfs um 14% á árinu, eða tæplega einn af hverjum sjö.

Við höfum flutt upplýsingatæknisvið Símans til dótturfélagsins Sensa til að skerpa enn frekar línurnar á milli félaga okkar. Sensa rekur því upplýsingatækni fyrir Símann, eins og svo mörg önnur fyrirtæki og hefur kostnaðurinn lækkað svo um munar.

Við höfum því selt eða sameinað sex til átta einingar, og núna standa eiginlega aðeins þrjár eftir: Síminn, Míla og Sensa. Breytingarnar miðuðu allar að því að Síminn væri með skýra kjarnastarfsemi en ekki eignarhaldsfélag á hlutabréfamarkaði sem ætti mörg fyrirtæki.

Frá sameiningunni eru breytingarnar þó fleiri. Danskt félag utan kjarnastarfseminnar en í eigu Símans var selt fyrir tveimur árum. Endursamið hefur verið við marga birgja, eins og fjarskiptarisann Ericsson um öflugri og útbreiddri 4G uppbyggingu í farsímanetinu okkar. Útbreiðslan nær nú 95,5% og er Síminn með senda í prófunum sem ná helmingi meiri hraða en núverandi netkerfi. Þá var endursamið við net­ þjónustufyrirtækið Farice, sem tryggir Símanum netsamband við umheiminn, og fékkst lægra verð gegn hárri fyrirframgreiðslu.

Við höfum gengið hratt í að einfalda samstæðuna, straumlínulaga og einbeita okkur að kjarnastarfseminni; fjarskiptum, upplýsingatækni og afþreyingu.“

Hvaða áhrif hefur einföldunin haft á vöru- og þjónustuframboð Símans?

„Við reynum ávallt að láta einfaldleikann ráða ferð. Eftir sameiningu Skjásins og Símans gat Síminn boðið upp á fjór­ þætta þjónustu: talsíma, farsíma, net­ þjónustu og sjónvarpsefni. Aukið þjónustuframboð Símans var í samræmi við þróunina erlendis, þar sem afþreying og sjónvarpsefni var að tengjast fjarskiptaþjónustu sífellt sterkari böndum. Við hættum í áskriftarsjónvarpi og seljum eingöngu SVoD-þjónustu; áskriftarvídeóleigu og þáttaleigu. Við höfum einfaldað bæði líf viðskiptavinarins og okkar með því að skerpa fókusinn og vera með færri einingar og færri vörur.“

Verðstríð á farsímamarkaði

Af hverju hefur þessi umfangsmikla einföldun átt sér stað?

„Það má segja að það hafi þrír kraftar kallað á þessa hagræðingu: alþjóð­leg verðhjöðnun á fjarskiptamarkaði, launahækkanir starfsmanna og breytingar á viðskiptamódeli fjarskiptageirans.

Viðtalið við Orra birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .