*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Innlent 5. apríl 2018 12:44

Úr bílskúr í milljarða veltu

Hátæknifyrirtækið Valka, sem þróar kerfislausn fyrir fiskiðnaðinn, stefnir á að tvöfalda veltuna í ár í yfir tvo milljarða.

Snorri Páll Gunnarsson
Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.
Haraldur Guðjónsson

Hátæknifyrirtækið Valka, sem sérhæfir sig í hönnun og sölu á heildstæðri kerfislausn fyrir fiskiðnaðinn, stefnir að því að tæplega tvöfalda veltuna í ár. Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár, en gangi áform þess eftir mun veltan hafa rúmlega tífaldast frá árinu 2012.

Kerfislausn Völku samanstendur annars vegar af vélbúnaði og hins vegar hugbúnaði fyrir fiskvinnslu á landi og sjó, einkum á ferskum fiski en einnig frystum. Vörur fyrirtækisins eru yfir tuttugu og flokkast í vatnskurðartækni, flokkunartækni og hugbúnað. Meðal þeirra eru sjálfvirkar beina- og bitaskurðarvélar fyrir fiskflök í hvítfisk- og laxavinnslum, sem áður voru seld með beini.

Valka var stofnað árið 2003 og fæddist í bílskúr systur Helga Hjálmarssonar, framkvæmdastjóra Völku. Helgi, sem áður starfaði hjá Marel, vildi þróa vél sem gæti pakkað og skorið ferskan hvítfisk með nákvæmari hætti en áður. Úr varð sjálfvirk vatnskurðarvél, sem skar fiskinn hárnákvæmt með kraftmikilli en smárri vatnsbunu. Í dag starfa hjá Völku um sextíu manns og selur fyrirtækið tækni sína og búnað til sjávarútvegsfyrirtækja víða um heim – en þó helst á Íslandi og í Noregi.

Salan hjá Völku nam fjórum milljónum króna fyrsta starfsárið og var nokkuð sveiflukennd næsta áratuginn, en eftir 2012, þegar veltan nam 202 milljónum, fóru tekjurnar að vaxa stöðugt. Í ár gerir fyrirtækið ráð fyrir að tvöfalda veltuna, úr 1,2 milljörðum króna í 2,1 milljarð. Helgi segir að rekja megi vöxtinn í sölu til þriggja þátta.

„Í fyrsta lagi erum við að bjóða upp á heildstæða kerfislausn fyrir fiskvinnslur sem er að gjörbreyta fiskiðnaðinum. Annars vegar fá fiskvinnslur verðmætari afurðir út úr flakinu með bættri nýtingu og hráefnismeðhöndlun og hins vegar dregur þetta úr kostnaði fyrirtækja þar sem það þarf færri hendur til að vinna fiskinn. Hvort tveggja hefur skilað fiskútflytjendum stóraukinni framlegð.

Í öðru lagi hefur markaðssetning á vörum okkar skilað árangri. Við höfum fundið fyrir auknum áhuga á innlendum markaði og erum til dæmis að afhenda Útgerðarfélagi Akureyringa stórt kerfi í sumar. Áhuginn á lausninni okkar hefur einnig aukist erlendis. Allt hefur þetta svo skilað sér í hraðri fjölgun erlendra markaða, svo sem í Bandaríkjunum, Hollandi, Póllandi, Litháen og Færeyjum.“

Samstarfið er lykilatriði

Helgi bætir því við að samstarf Völku við innlend sjávarútvegsfyrirtæki og sjávarklasann hafa verið lykilatriði í árangri fyrirtækisins. Til að mynda hafi Valka þróað upphaflegar pökkunarlausnir og skurðarvél með HB Granda. Síðan hafi fyrirtækið þróað hugbúnaðarkerfi með HB Granda til að halda utan um fiskvinnsluna og koma á fót kerfislausn í samkeppni við fyrirtæki á borð við Marel og Baader.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.