Pétur Þór Halldórsson, stofnandi, forstjóri og einn eigenda fyrirtækisins S4S, hefur lifað og hrærst innan verslunargeirans frá unga aldri eða allt frá því að hann réð sig í vinnu sem skósali. Eftir útskrift úr menntaskóla hóf Pétur nám í viðskiptafræði, en fall í bókfærslu á fyrstu önn varð til þess að hann gerði skósölu að lifibrauði sínu.

„Ég byrjaði í skóbransanum árið 1986 eftir útskrift úr Kvennó. Sumarið fyrir viðskiptafræðina fékk ég starf í skóverslun Axel Ó. á Laugavegi 11. Um haustið hóf ég viðskiptafræðinámið en féll í bókfærslu sem varð til þess að ákvað ég að taka mér smá frí, með það að markmiði að reyna aftur við viðskiptafræðina haustið eftir. Ég sneri aftur til starfa hjá Axel Ó en til að gera langa sögu stutta sneri ég ekki aftur í skólann."

Nokkrum árum síðar hóf Pétur störf hjá Strikinu skóverksmiðju á Akureyri. „Fljótlega ákveð ég að stofna mína eigin skóheildsölu. Heildsalan var smá í sniðum, ég gekk á milli skóbúða með tvær íþróttatöskur fullar af skóm undir hendinni, kynnti vöruúrvalið og reyndi að selja skó. Lagerinn var ekki stór,   hann komst allur fyrir í bílskúr sem ég leigði í Fossvoginum."

Að nokkrum árum liðnum tryggði Pétur sér söluumboð fyrir Ecco skó á Íslandi og í kringum aldamótin var fyrsta Ecco verslunin opnuð í Kringlunni og þar með kom Pétur að rekstri skóverslunar í fyrsta sinn.

„Á þessum tíma jókst starfsemin enn frekar og fyrirtækið hóf einnig verslunarrekstur. Ecco fékk mjög góðar viðtökur hjá landsmönnum og markaðurinn stækkaði sífellt. Næsta skref fólst í að kaupa skóverslanirnar Steinar Waage og Toppskóinn. Skömmu síðar voru kaup fest á versluninni Euroskó og var nafninu á þeirri verslun breytt í Kaupfélagið.  Fyrir níu árum hófst rekstur netverslunarinnar Skór.is. Árið 2014   var íþróttavöruverslunin Air í Smáralind opnuð,  þar sem seldur er Nike fatnaður frá toppi til táar. Árið 2017 var önnur   slík verslun opnuð í Kringlunni. Þetta er búin að vera stöðug þróun og mikil gæfa að okkar birgjar eru í fremstu röð í heiminum og koma stöðugt með nýjungar og frábærar vörur sem við bjóðum landsmönnum upp á."

Þó að bókfærslan hafi ekki átt við Pétur á níunda áratug síðustu aldar, þá settist hann aftur á skólabekk fyrir nokkrum árum þegar hann fór í MBA nám við Háskólann í Reykjavík. „Það var lærdómsríkt og skemmtilegt og hefur gagnast mér mikið, enda rekstrarumhverfið stöðugt að verða alþjóðlegra, flóknara og í sjálfu sér áhættusamara. Að hafa yfirsýn og stöðugleika, en vera stöðugt að leita nýrra lausna og möguleika krefst því mikils aga sem svona nám veitir manni."

Ellingsen verður hluti af S4S samstæðunni

Nú rekur S4S fimmtán verslanir og þrjár netverslanir, auk heildsölunnar. Nýjasta viðbót S4S samstæðunnar er hin rótgróna útivistarverslun Ellingsen.

„Sjávarsýn, félag vinar míns Bjarna Ármannssonar, festi kaup á Ellingsen fyrir um fjórum árum og fyrir rúmum tveimur árum varð Ellingsen hluti af S4S og Sjávarsýn hluti af eigendahópi S4S."

Pétur segir að í kjölfar komu Ellingsen inn í S4S samstæðuna hafi strax verið hafist handan við að vinna í því að koma S4S fyrirtækjamenningunni inn í Ellingsen og samþætta starfsemina.

„Eins og gengur og gerist tók sinn tíma þar sem fyrirtækjamenning félaganna var ólík. Við sem störfuðum í S4S, höfðum aðallega verið í því að selja föt og skó og   þurftum því að koma okkur inn í ýmsa nýju hluti. Ellingsen selur nánast allt sem viðkemur útivist og því var margt nýtt sem við þurftum kynna okkur og læra á. Þetta er því búinn að vera lærdómsríkur tími og ofboðslega gefandi og skemmtilegur sömuleiðis. Í dag erum við því með bæði fjölbreytt en heilsteypt fyrirtæki sem á sterkt erindi við sína viðskiptavini og ótrúlega samhentan stjórnenda og eigendahóp."

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .