„Þegar maður nær svona góðu samstarfi með einhverjum, þá er það alveg ómetanlegt og maður vill ekki sleppa takinu af því. Þegar við vorum að fá verkefni inn á borð hjá okkur, í sitthvoru lagi, þá leituðum við alltaf til hvorrar annarrar. Við vorum orðnar nokkurs konar dúó. Þetta gerðist allt saman mjög náttúrulega. Við fórum að vinna í alls konar verkefnum saman. Það var bara núna í sumar sem við ákváðum að gera samstarfið formlegt og stofna þetta stúdíó – Studio Holt ,“ þetta segir Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir meðstofnandi Studio Holt í samtali við Viðskiptablaðið. En nýverið stofnaði Svanhildur hönnunar- og hugmyndastofuna Studio Holt ásamt Júlíu Runólfsdóttur.

Svanhildur Gréta útskýrir að þær kalli sig alhliða stúdíó. „Við tökum að okkur mörkun (e. branding) fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Sérstaða okkar liggur í því að komast að kjarna hvers verkefnis og vinna alla skapandi sýn og hönnun út frá því,“ segir hún. Svanhildur segir að þær taki að sér heimasíðugerð, vörumerkjahönnun og hugarheimssköpun fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Reynslan frá Blæ hjálpaði mikið

Áður unnu Svanhildur og Júlía að stofnun veftímaritsins Blær. „Það gekk ótrúlega vel og var algjört ævintýri. Við unnum meðal annars til fjögurra nýsköpunar- og hönnunarverðlauna. Í kjölfarið fórum við Júlía að vinna nánar saman,“ segir Svanhildur. Hún bætir við að reynslan frá Blæ hafi hjálpað mikið til. „Þar vorum við mikið í því að skapa alls konar efni (e. content) sem náði til okkar kynslóðar.

Þegar Svanhildur er spurð að því að hvers konar verkefni Studio Holt hafi verið að vinna að frá því að formlegt samstarf hófst segir hún að það hafi verið nóg á döfinni hjá stofunni.

„Við höfum verið að gera vefsíður, tímarit, bækur, og fleira. Okkar stærsta verkefni í sumar er pítsastaðurinn Flatey, sem opnar brátt úti á Granda. Við komum að ímyndunarsköpun staðarins og allri grafískri hönnun staðarins.Það var til að mynda mjög gaman að sjá þá setja upp skiltið að utan, að sjá það sem maður vinnur við verða að veruleika,“ svarar hún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um mikinn hagnað Jarðbaðanna á Mývatni.
  • Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hefur hagnast gríðarlega á undanförnum árum þökk sé hækkandi fasteignamati.
  • Kvika banki hyggst kanna kosti skráningar á First North á meðan fjórða fyrirtækið óskaði eftir skráningu í vikunni.
  • Breytingar hjá HB Granda virðast hafa haft lítil áhrif á hlutabréfaverð félagsins.
  • Ekki er ósennilegt að félagsmiðlar muni sæta auknu regluverki á komandi árum
  • Magnbundinn íhlutun seðlabanka heimsins hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir.
  • Forstjóri Greenqloud segir hraða uppbyggingu framundan eftir að fyrirtækið var keypt af NetApp.
  • Umfjöllun kísilvæðingu í hremmingum.
  • Ítarlegt viðtal við Aðalheiði Kristjánsdóttur, stofnanda Kaffitárs.
  • Rætt er við Heimi Þorsteinsson, nýjan framkvæmdastjóra á fjármálasviði Alvogen.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Landsdóm.
  • Óðinn fjallar um efnahagslegan stríðsrekstur.