Eigendur eignarhaldsfélagsins Steinhellu ehf. í Hafnarfirði hafa ekki lagt árar í bát þrátt fyrir nær algjört frost í byggingargeiranum.

Þetta eru Jónas Stefánsson rafvirkjameistari og Guðmundur Adolfsson húsasmíðameistari, sem spáði því í Viðskiptablaðinu í júní 2005 að skellur væri framundan vegna þess að þenslan sem þá var að komast á skrið gæti ekki staðist. Hafa þeir nú stofnað fyrirtækið Fjallableikju ehf. og tekið á leigu stóra fiskeldisstöð að Hallkelshólum í Grímsnesi til 15 ára. Þar eru þeir þegar byrjaðir á bleikjueldi og gera ráð fyrir að stöðin verði komin í fulla starfsemi snemma á næsta ári.

„Við erum bara iðnaðarmenn sem höfum fundið okkur nýjan farveg," segir Jónas.

„Við erum einfaldlega að grípa þau tækifæri sem í lífinu bjóðast og erum með fiskeldisfræðing okkur til halds og trausts. Hér erum við með 2.000 rúmmetra í kerum og höfum möguleika á að auka um tólf 120 rúmmetra ker á lóðinni."

„Við erum þegar komnir með 30 þúsund seiði sem við fengum frá Hólum í fjögur eldisker. Þau verða orðin matfiskur miðsumars 2010," segir Guðmundur.

„Svo fáum við 40 lítra af hrognum eftir áramótin. Við erum að freista þess að snúa vörn í sókn og ætlum okkur að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið sem ekki virðist vanþörf á.”

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .