Björn Þorvaldsson, saksóknari í máli Baldurs Guðlaugssonar, segir „augljóst“ að Baldur hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum tveimur vikum áður en bankinn féll. Hann lét þessi orð falla í málflutningi sínum fyrir héraðsdómi sem stendur nú yfir.

Baldri er gefið að sök að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 fyrir um 192 milljónir króna er hann bjó yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans. Ákæran tekur einnig til brota í opinberu starfi.  Baldur, sem sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika, neitar staðfastlega sök í málinu.

Reiknað er með því að það taki Björn um tvo tíma að flytja ræðu sína. Karl Axelsson, lögmaður Baldurs, áætlar að það taki hann tvo til þrjá tíma að flytja sína ræðu.