Halldór J. Kristjánsson, fyrrum bankastjóri Landsbankans, sagðist ekki hafa talið að samskipti samráðshóps íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika við breska fjármálaeftirlitið (FSA) hafi innihaldið upplýsingar sem væri verðmyndandi fyrir bréf í Landsbankanum.

Halldór bar í morgun vitni í máli Baldurs Guðlaugssonar sem er gefið að sök að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 fyrir um 192 milljónir króna er hann bjó yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans. Ákæran tekur einnig til brota í opinberu starfi.  Baldur, sem sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika, neitar staðfastlega sök í málinu.

Fékk að bera vitni símleiðis

Halldór átti upphaflega að bera vitni 2. mars síðastliðinn. Hann óskaði þá eftir að fá að gefa skýrslu símleiðis þar sem hann er búsettur í Edmonton í Kanada. Þeirri bón var hafnað og honum gert að mæta í eigin persónu til að bera vitni. Halldór fékk þó á endanum að gefa skýrslu sína símleiðis og var það sagt vera vegna persónulegra aðstæðna.

Í vitnisburði hans kom fram að trúnaður hafi átt að gilda um þau samskipti sem átt höfðu sér stað við FSA vegna áhyggja stofnunarinnar vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Halldór sagðist þó ekki hafa litið svo á að samskiptin við FSA hafi verið upplýsingar sem talist gætu verið verðmyndandi á markaði.