Björn Þorvaldsson, saksóknari í máli Baldurs Guðlaugssonar, sagði í ræðu sinni fyrir dómi í dag að þær upplýsingar sem væri að finna í fundargerðum samráðshóps íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika væru svo miklar og augljósar innherjaupplýsingar, að þær væru eins og hálfgert veisluborð fyrir ákærandann í málinu. Baldur sat í samráðshópnum.

Baldri er gefið að sök að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 fyrir um 192 milljónir króna er hann bjó yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans. Ákæran tekur einnig til brota í opinberu starfi.  Baldur neitar staðfastlega sök í málinu. Málflutningi í málinu lýkur í dag.