*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Fólk 14. ágúst 2011 13:29

Úr einum forstjórastóli í annan

Ragnhildur Geirsdóttir var fyrsta konan til að gegna starfi forstjóra Flugleiða. Þá var hún forstjóri Promens.

Sólrún H. Þrastardóttir
Haraldur Jónasson

Ragnhildur Geirsdóttir hættir störfum sem forstjóri Promens hf. og koma starfslokin til af hennar eigin ósk. Ragnhildur mun taka sæti í stjórn félagsins. Promens er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu plastafurða og rekur 45 verksmiðjur í 19 löndum. Jakob Sigurðsson, fyrrum framkvæmdarstjóri deCODE genetics, hefur tekið við forstjórastarfinu. Ragnhildur útskrifaðist sem vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995. Hún útskrifaðist með M.S. í iðnaðarverkfræði frá University of Wisconsin- Madison 1996 og með M.S. í framleiðslustjórnun frá sama skóla árið 1998.

Fyrsta konan í forstjórastól

Ragnhildur hóf störf hjá Flugleiðum árið 1999 við stefnumótun félagsins. Árið 2002 var hún skipuð forstöðumaður rekstrarstýringardeildar og framkvæmdastjóri rekstrarstýringarsviðs Icelandair í janúar 2003. Í júní 2005 tók hún við starfi Sigurðar Helgasonar sem forstjóri Flugleiða, síðar FL Group. Ragnhildur varð fyrst kvenna til að setjast í forstjórastól Flugleiða og einnig fyrst kvenna til að gegna framkvæmdastjórastöðu hjá félaginu. Þegar Ragnhildur tók við forstjórastarfinu fékk hún vitneskju um að Hannes Smárason, stjórnarformaður, hefði látið millifæra tæpa 3 milljarða króna af reikningi félagsins til Kaupþings í Lúxemborg. Engin gögn voru til um málið en vísbendingar voru um að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti verið millifærðir á Fons. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var ýjað að því að Ragnhildur hefði þegið greiðslur fyrir að tjá sig ekki um málefni félagsins eftir að hún lét af störfum. Ragnhildur vísaði því alfarið á bug í opinberri tilkynningu. Hannes Smárason var ráðinn forstjóri félagsins við starfslok Ragnhildar í október 2005.

Stuttu eftir starfslokin hjá Flugleiðum var Ragnhildur ráðin forstjóri Promens og hóf störf þar 1. janúar 2006 en hefur nú sagt upp störfum. Lætur hún formlega af störfum hjá Promens þann 31.ágúst næstkomandi. Hún hefur ekki gefið upp hvert næsta starf hennar verður.

Stjórnarstörf

Ragnhildur hefur gengt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum. Hún sat í mörgum stjórnum hjá dótturfélögum Flugleiða og dótturfélögum Promens. Þá sat hún í stjórn Árvakurs og TM Software. Árin 2005-2006 var hún í stjórn Kauphallarinnar og stjórn SA. Þá var hún varamaður háskólaráðs árið 2008.