„Það var mikið af sendibílum á bílasölum eftir hrun. Þeir voru skildir eftir af iðnaðarmönnum sem fluttu til Noregs að fá vinnu. Þessir bílar voru mjög óspennandi og enginn vildi eiga þá. Ég sá ákveðin tækifæri í þessu. Ég byrjaði að kaupa einn Renault Kangoo sendibíl, 5 ára gamlan. Ég breytti honum heima á plani og setti rúm í hann. Ég er 190 sentimetrar á hæð og miðaði við þá stærð. Eftir breytingarnar þá komst ég allavega fyrir í rúminu í bílnum og var afar sáttur með það. Þannig byrjaði ævintýrið," segir Steinarr Lár, stofnandi og forstjóri Kú Kú Campers.

Hann fór síðan í að kaupa fleiri sendibíla og breyta þeim í húsbíla.

,,Pantanir fóru að berast fljótlega og þær hlóðust upp. Það voru ekki til nógu margir bílar á fyrsta ári til að sinna öllum fyrirspurnum. Lárus Guðbjartsson frændi minn kom inn í reksturinn með mér. Fyrsta sumarið endaði nú þannig að við vorum tveir starfandi með 26 húsbíla."

Steinarr hafði starfað fyrir Jack Daniels þegar hann var búsettur í Þýskalandi á árunum 2007-2011.

,,Þar lærði ég mikið um vörumerkjastjórnun og annað markaðstengt efni. Áfengisbransinn var svo leiðinlegur að því leyti að það má ekkert auglýsa. Þegar farið var af stað með húsbílana þá gat ég gert allt það sem mig langaði til í markaðsmálum. Það var ákveðið að skreyta húsbílana þannig að það væri ekki annað hægt en að taka eftir þeim. Ég var ákveðinn í að setja fræga karaktera á hvern bíl sem fólk gæti tengt við og haft gaman af. Og fyrsti bíllinn var skreyttur með Chuck Norris. Svo fylgdu í kjölfarið Steven Seagal, David Hasselhoff og Whitney Houston," segir hann og brosir.

Spurður um stöðuna í ferðaþjónustunni og horfur svarar hann:

,,Í hverri einustu viku síðan ég hóf rekstur finnst mér vera spáð hruni í ferðaþjónustunni. Það hefur ekki orðið raunin heldur verið stanslaus vöxtur. Áhuginn á Íslandi er ekki að dvína en það er bara spurning fyrir ferðamenn hversu hagstætt það er að koma hingað. Það hefur allt hækkað hér á landi með styrkingu krónunnar. Það er því dýrara fyrir útlendinga að koma hingað. Þeir sem bjóða upp á hagkvæmar lausnir fyrir ferðamenn munu lifa af. Þar höfum við náð að gera vel. Við höfum aldrei hækkað verð en við höfum náð að lækka það hins vegar. Við getum verið ódýrir því við erum með þannig stærðarhagkvæmni. Við rekum okkar eigin smíðaverkstæði þar sem við smíðum bílana okkar. Við eigum það skuldlaust sem og annað húsnæði sem við rekum fyrirtækið í. Það er partur af okkar samkeppnishæfni. Við bjóðum upp á hagstæðustu lausnina til að ferðast hringinn í kringum landið. Að geta boðið upp á hagstætt verð skilar sér í ánægðum viðskiptavinum."

Steinarr segir að fyrstu árin hafi fyrirtækið einungis verið að sinna útlendingum en síðustu tvö ár hafi aukist mjög að Íslendingar leigi húsbíla.

,,Það hefur verið áberandi mikil aukning á íslenskum viðskiptavinum í sumar. Fólk er t.d. að fara í sveitabrúðkaup og leigir húsbíl hjá okkur. Ég held að það sé að aukast mjög að fólk leigi hluti frekar en að eiga þá."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .