Kristín Soffía Jónsdóttir tók nýverið við sem framkvæmdastjóri Icelandic  Startups. Hún segir nýja starfið leggjast mjög vel í sig og fyrstu vikurnar í starfi lofi mjög góðu fyrir framhaldið. „Samstarfsfólk mitt hefur tekið mjög vel á móti mér og það er gaman að fá að kynnast nýsköpunargeiranum innan frá. Það sem einkennir Icelandic Startups, og í raun nýsköpunargeirann almennt, er hve mikil jákvæðni svífur yfir vötnum. Þetta frumkvöðlaumhverfi er ótrúlega hvetjandi, sem er eitthvað sem einkennir ekki alltaf stjórnmálin," segir hún kímin og bætir við: „Það má segja að stjórnmál og frumkvöðlastarfsemi séu miklar öfgar hvort í sína áttina."

Starfsferill Kristínar Soffíu hefur þar til nú verið helgaður borgarstjórnarmálum í Reykjavík. Hún var borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík frá árinu 2014 og allt þar til nýverið er hún hætti sem borgarfulltrúi til að taka við nýja starfinu. Kristín hafði verið viðloðandi stjórnmálin í borginni í ríflega áratug þar sem hún var varaborgarfulltrúi á árunum 2010 til 2014. Að auki gegndi hún stöðu stjórnarformanns hjá Faxaflóahöfnum frá árinu 2014. Spurð um hvers vegna hún hafi ákveðið að taka þessa U-beygju á starfsferlinum, kveðst hún einfaldlega hafa fundið það innra með sér að tími væri kominn á breytingar. Hún leggur áherslu á að brotthvarf hennar við úr borgarstjórn hafi verið á góðu nótunum og kann hún samstarfsfólki sínu úr borgarstjórn, bæði úr röðum Samfylkingarinnar sem og annarra flokka, bestu þakkir fyrir samstarf undanfarinna ára.

„Ég fann það frekar fljótt á þessu kjörtímabili að það yrði mitt síðasta. Fólk finnur það oft í hjarta sínu að það sé komið á ákveðna endastöð í þeirri vinnu sem það er í og þá er það allra hagur að viðkomandi hverfi til nýrra starfa. Ég átti mjög góðan og skemmtilegan tíma í borgarstjórn en mér fannst ég vera búin að klára þau verkefni sem ég brann fyrir og lagði áherslu á að hrinda í framkvæmd. Mér fannst ég því svolítið vera búin að gera mitt og uppfylla mína samfélagslegu skyldu um að vera kjörinn fulltrúi. Á sama tíma vissi ég að ég vildi starfa á einhverjum vettvangi þar sem ég gæti unnið að því að gera samfélagið betra."

Hún lýsir stjórnmálamanninum Kristínu Soffíu sem nokkuð einsleitum. „Í gegnum feril minn í stjórnmálum hef ég verið nokkuð einsleitur stjórnmálamaður að því leyti að ég hef viljað einblína á að vera í umhverfis- og skipulagsmálum, auðlinda- og orkumálum og hafnarmálum. Það er á þessum sviðum sem minn áhugi liggur og mér þykir mikilvægt að maður hugsi svolítið um það hvað maður hefur við hlutina að bæta. Það geta allir stigið fram og sagt sína skoðun á hverju sem er, en ég vildi beita mér fyrir þeim málaflokkum sem ég hef mikla þekkingu og reynslu af."

Saknar þú stjórnmálanna?

„Nei, alls ekki en ég hugsa samt mjög hlýlega til þessa tíma. Ég hef lært ótrúlega margt af því að starfa innan stjórnmálanna en hef litla trú á að ég muni sakna þess að starfa á þeim vettvangi. Þetta er tímabil í mínu lífi sem nú er lokið og nýjar áskoranir hafa tekið við."

Umhverfismálin í forgrunni

Kristín Soffía, sem er menntaður umhverfisverkfræðingur, segir mjög sterka taug innra með sér brenna fyrir umhverfismálum. Þessi ástríða fyrir umhverfismálum hafi orðið uppsprettan af fyrstu kynnum hennar við nýsköpunargeirann. Hún hafi svo kynnst starfsemi Icelandic Startups síðastliðið haust er hún stofnaði, ásamt fleirum, Hringiðu, viðskiptahraðal sem leggur áherslu á sprota byggða á hugmyndafræði hringrásahagkerfisins.

„Mér fannst vanta upp á að settur yrði skýrari fókus á nýsköpun sem beint er að því að tækla hinar ýmsu áskoranir í umhverfismálum. Það hafa tekið gildi og eiga eftir að taka gildi metnaðarfullar reglugerðir þegar kemur að innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Ég vildi koma á fót einhvers konar frumkvöðlahraðli til þess að veita fyrirtækjum sem eru að vinna að lausnum innan hringrásarhagkerfisins farveg. Það fór því svo að ég leitaði til Icelandic Startups síðasta haust með það í huga að koma þessum hraðli á fót. Það rættist úr því og á þessum tíma fékk ég að kynnast hve spennandi og mikilvæg starfsemi Icelandic Startups er fyrir íslenska nýsköpunargeirann."

Þegar Salóme Guðmundsdóttir, forveri Kristínar Soffíu í starfi, tilkynnti í byrjun árs að hún hugðist að láta af störfum, kveðst Kristín Soffía strax hafa ákveðið að hún myndi sækja um starfið. „Til þess að halda áfram að lifa góðu og gefandi lífi þá þurfum við að finna lausnir. Margt sem við erum að gera í dag er kannski ekki sjálfbært til framtíðar. Þessar nýju lausnir verða svo einmitt til fyrir tilstilli nýsköpunar. Þetta er eitt af mörgu sem heillaði mig við þetta starf."

Hún segir áhuga sinn á nýsköpun lengi hafa verið til staðar. „Ég hef sinnt hinum ýmsu verkefnum tengt viðskiptaþróun, m.a. í gegnum þróunarfélag á Grundartanga og sem stjórnarformaður Faxaflóahafna undanfarin sjö ár. Nýsköpun á sér ekki síður stað innan rótgróinna fyrirtækja og í rauninni í stjórnmálunum líka."

Spurð um þær áherslur sem hún muni koma með inn í Icelandic Startups og leggja áherslu á, segir Kristín Soffía að til að byrja með muni hún einbeita sér að því að kynnast þeim fjölmörgu hliðum sem starfsemi fyrirtækisins snýr að.

„Salóme er búin að vinna virkilega flott starf fyrir fyrirtækið síðustu ár og ég tek við mjög góðu búi. Það eru mörg stór og skemmtileg verkefni í gangi hér á Íslandi, auk þess sem það er búið að koma á öflugu samstarfi við erlenda aðila. Grunnur fyrirtækisins er traustur og til að byrja með mun ég leggja mesta áherslu á að koma mér inn í starfsemi fyrirtækisins."

Hennar áherslur á umhverfismál og græna nýsköpun muni þó alltaf skína í gegn. „Það eru einmitt áherslur sem hafa verið að skapa sér veigamikinn sess í nýsköpun undanfarið. Þarna hefur Ísland einmitt sérstöðu í samanburði við aðrar þjóðir er kemur að þáttum eins og orkuvinnslu, þekkingu á slíkri vinnslu og framboði á endurnýjanlegri grænni orku. Það þarf að leggja áherslu á að þetta forskot sé nýtt eins vel og kostur er á."

Nánar er rætt við Kristínu Soffíu í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .