Félagið Sigla ehf. hefur selt 50 milljón hluti í Reginn á verðinu 17,45, andvirði um 870 milljónir króna, til Snæbóls ehf.  Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sigla ehf. var í helmings eigu Gana ehf. en það félag er að fullu í eigu Tómasar Kristjánssonar, stjórnarformanns Regins. Hinn helmingur Siglu var í eigu Snæbóls ehf., félags Finns Reys Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Viðskiptin eru í tengslum við eignarhaldsbreytingu á Siglu sem verður að fullu í eigu Gana ehf. sem er í fullri eigu Tómasar Kristjánssonar. Sigla á 50 milljón hluti og Snæból 50 milljón hluti eftir þau viðskipti.

Þá hefur Sigla keypt 10 milljón hluti í Reginn hf. af Gana ehf., sem er eins og áður kom fram að fullu í eigu Tómasar Kristjánssonar. Eftir bæði viðskiptin á Sigla 60 milljón hluti í Reginn hf. Endanleg eign Tómasar Kristjánssonar og Snæbóls í hlutabréfum í Reginn er óbreytt eftir þessi viðskipti, samtals 110 milljónir hluta, virði um 1,9 milljarða króna.

Leiðrétting 24. júní kl. 10.01 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var staðhæft að Tómas Kristjánsson ætti hlut í Snæbóli en það er rangt. Meginmáli og undirfyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt sökum þess.