*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Innlent 9. apríl 2020 16:12

Úr eltingaleik við gengi í smitrakningu

Stór erlendur fréttamiðill segir frá því að Ævar Pálmi Pálmason hafi farið úr því að elta uppi glæpagengi í smitrakningu á COVID-19.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lögreglufulltrúinn Ævar Pálmi Pálmason fór úr því að eltast við meðlimi glæpagengja hér á landi yfir í smitrakningu á kórónuveirunni, eða svo segir a.m.k. í frétt WSJ um málið.

Ævar Pálmi er yfirmaður smitrakningarteymis sóttvarnarlæknis og ríkislögreglustjóra, en hlutverk þess er að koma í veg fyrir að þeir sem hugsanlega eru sýktir af veirunni breiði henni út með því að smita fólk í kringum sig. Í nægu hefur verið að snúast hjá teyminu enda hafa rúmlega 1600 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi og rúmlega 18000 manns eru nú í eða hafa lokið sóttkví.

Í frétt WSJ er sagt frá nýjasta tólinu í baráttunni gegn veirunni, sem er C-19 smitrakningarappið og greint frá því að um þriðjungur þjóðarinnar hafi þegar sótt smáforritið.

Auk þess er sagt frá því að þeim sem hafa verið nýlega í návist aðila sem greinst hafi með kórónuveiruna sé gert að fara í sóttkví í tvær vikur. Smitrakningateymið sjái svo um að hringja í viðkomandi til að skipa þeim í sóttkví. Ef fólk verði ekki við því og fari úr sóttkví eiga það á hættu að vera sektað um allt að 250 þúsund krónur.

Ævar Pálmi segir í samtali við WSJ að það hafi komið fyrir að fólk sé alls ekki á þeim buxunum að hlýða og fara í sóttkví. Nefnir hann sem dæmi að einn aðili hafi ákveðið að svara ekki símanúmerum lögreglunnar en hafi svo svarað um leið og einn meðlimur teymisins hringdi úr einkafarsímanum sínum.

Smitrakningarteyminu er hælt fyrir störf sín í fréttinni, enda sýni tölurnar að yfir helmingur þeirra sem greinist með veiruna hafi fyrir greiningu verið í sóttkví. Þá hafi nýjum smitum fækkað á degi hverjum frá síðasta sunnudegi. „Við erum með fulla stjórn á hlutunum," hefur WSJ eftir Ævari Pálma.