Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri raftækjaheildverslunarinnar SRX, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðisins. Þar ræðir hann um kaup félagsins á Ormsson, hvernig þau komu til, rekur sögu SRX og ræðir ýmislegt fleira.

Sameinuð félög verða í eigu Kjartans, Ingva Týs Tómassonar og Guðmundar Pálmasonar en þeir hafa verið samstarfsfélagar í áratugi. „Við höfum unnið saman í 21 ár," segir Kjartan. Samstarfið hófst hjá Strax, sem er í dag skráð í Kauphöll í Svíþjóð og sérhæfir sig einna helst í sölu aukahluta fyrir farsíma. Finna má vörur Strax í þúsundum verslana víða um heim. Ingvi stofnaði fyrirtækið árið 1995 og Guðmundur, hefur verið forstjóri þess frá árinu 2019 en Kjartan gekk til liðs við Strax um aldamótin.

Áður hafði Kjartan unnið fyrir föður Ingva, veitingamanninn Tómas A. Tómasson eða Tomma á Búllunni, þegar Tommi rak Hard Rock Café. „Ég var að klára stjórnmálafræði í HÍ og á leiðinni með konu og barni til Parísar að byrja í MBA-námi í Insead. Í lestinni á leiðinni til Parísar hringdi Ingvi í mig og sagði: „Pabbi segir að þú sért maðurinn sem ég er að leita að. Ég er að opna Strax í Evrópu. Gætir þú komið til London og rekið það með okkur. Þú getur farið í MBA-nám hvenær sem er á ævinni."

Kjartan lét til leiðast og lagði námsbækurnar á hilluna í bili og flutti með fjölskyldunni til London í stað Parísar. „Þá hófst mesta ævintýri lífs míns. Ég er lærður flugmaður en flaug líklega meira næstu sex árin en nokkur flugmaður. Við fórum þar sem við sáum tækifæri, hvort sem það var í Rússlandi, Kína, Frakklandi eða annars staðar. Á fimm árum árum óx Strax í Evrópu úr engu upp í ellefu milljarða króna veltu."

Þó fyrirtækið hafi verið smátt í sniðum í upphafi voru þeir stórhuga. „Evran var að verða til á þessum árum og farsímafyrirtæki farin að sameinast yfir landamæri. Við töldum að sú þróun myndi ganga mun lengra og horfðum því á alla Evrópu sem okkar markaðssvæði en ekki bara eitt land. Það hjálpaði okkur mikið. Við urðum annar eða þriðji stærsti dreifingaraðili á aukahlutum fyrir farsíma í Evrópu, sem var í raun ótrúlegt."

Kjartan flutti heim árið 2007 og tók í kjölfarið við sem framkvæmdastjóri Egilsson hf., sem rak þá meðal annars verslanir Office 1. Árið 2012 ákváðu þremenningarnir, Kjartan, Ingvi og Guðmundur að stofna SRX. Félagið byggði á gömlum viðskiptasamböndum Strax sem segja má að legið hafi í dvala frá árinu 2008 þegar Strax hætti vörumiðlun til að leggja áherslu á framleiðslu og dreifingu aukahluta fyrir farsíma. „Við það skildi Strax eftir viðskiptasambönd við fyrirtæki út um allan heim sem við vildum nýta með stofnun SRX."

Nánar er rætt við Kjartan Örn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .