*

laugardagur, 4. apríl 2020
Innlent 14. júní 2017 19:45

Úr fimm búðum í átján

Ári eftir stofnun Sölva Chocolates er súkkulaði þeirra selt í átján búðum og gengur reksturinn mjög vel að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Pétur Gunnarsson

Fyrirtækið Sölva Chocolates var stofnað fyrir ári síðan af Láru Borg Lárusdóttur, Áshildi Friðriksdóttur, Sveini Ólafi Lúðvíkssyni, Unni Svölu Vilhjálmsdóttur og Jórunni Maríu Þorsteinsdóttur og hafa stofnendur þess marga fjöruna sopið eftir að framleiðslan á súkkulaði þeirra hófst formlega um síðustu jól. Teymið á bak við Sölva tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík í fyrra og var þá yngsta teymið sem tók þátt. Frumkvöðlarnir fimm sem að stofnuðu fyrirtækið eru á aldrinum 20 til 21 og eru þau öll nýútskrifuð úr Verzlunarskóla Íslands. Súkkulaði Sölva Chocolate er nú selt í átján búðum.

Lára Borg Lárusdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hún segir að rekstur þess hafi gengið mjög vel hingað til, vonum framar í raun og veru. „Við tókum þátt í Startup Reykjavík síðasta sumar og áætlunin var að koma okkur á markað strax í september en það gekk ekki alveg eins fljótt fyrir sig og við gerðum ráð fyrir. Við byrjuðum að selja vörur okkar í búðir korter í jól, á Þorláksmessu. Síðan það gerðist hefur þetta allt gengið mjög hratt og mjög vel fyrir sér. Við fórum úr því að vera í fimm búðum í upp í átján á nokkrum mánuðum,“ segir Lára.

Selja í sælkerabúðir

Framkvæmdastjóri Sölva segir að þær átján verslanir þar sem að súkkulaði Sölva er selt eiga það sameiginlegt að vera einhvers konar sérverslanir. „Þetta eru svona litlar sælkerabúðir sem við erum að selja í. Til dæmis Búrinu, Borðinu, Vínberinu og Fylgifiskum,“ segir Lára. Hún segir að á næstunni verði megináhersla fyrirtækisins á íslenskan markað á meðan forsvarsmenn þessu eru enn svona ungir. „Við erum ennþá  mjög nýtt fyrirtæki svo við ætlum að sjá hver þetta leiðir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð. Meðal annars efnis í blaðinu er: 

 • Hagnaður Bláa Lónsins hefur þrefaldast á síðustu þremur árum.
 • Fjallað er um viðbrögð við vaxtalækkun Seðlabankans.
 • Jón Daníelsson, hagfræðingur við LSE, segir of mikið einblínt á að draga úr áhættu í fjármálakerfinu.
 • Fjallað er um verðhækkun á sumarbústöðum. 
 • Greint er frá niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal fjármálastjóra stærstu fyrirtækja landsins. 
 • Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur ekki verið lægra síðan fyrir hrun.
 • Fjallað er um skýrslu um aðskilnað fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi.
 • Ríkissjóður hefur að fullu greitt upp skuld sína við Seðlabanka Íslands vegna hinna alræmdu ástarbréfa.
 • Ítarlegt viðtal við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra í Reykjanesbæ.
 • Umfjöllun um C-Class Coupe nýjasta sportbíl Mercedes-Benz.
 • Rætt er við forsvarsmenn tölvuleikjafyrirtækisins Porcelain Fortress.
 • Ingólfur Bender nýr hagfræðingur Samtaka Iðnaðarins, er tekinn tali.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um vopnaða sérsveitarmenn.
Stikkorð: súkkulaði framleiðsla vöxtur Sölva