Nýstofnað dótturfélag Útgerðarfélags Reykjavíkur hf., ÚR-Innovation ehf. hefur keypt 25% hlut í fyrirtækinu Zym Ice ehf. sem framleiðir fæðubótarefnið Unbroken. Með fjárfestingunni stígur útgerðarfélagið fyrsta skrefið í átt að nýtingu sjávarlíftækni til að hámarka verðmæti sjávarafurða, að því er kemur fram í fréttatilkynningu vegna málsins. Zym Ice er íslenskt fyrirtæki sem rekur verksmiðju í Noregi og tvær söluskrifstofur erlendis. Fjárfestingin styrkir stöðu Zym Ice og hraðar þróun og dreifingu á vörum félagsins á alþjóðamarkaði.

„Unbroken Real Time Recovery er byltingarkennt fæðubótarefni sem byggir á áralöngum rannsóknum og þróunarvinnu. Dreifing og sala vörunnar hefur aukist hratt undanfarið og er hún nú seld í 25 löndum í Evrópu og Norður-Ameríku. Helstu markaðir eru á sviði íþrótta, heilsu og næringarefna. Sérstaða vörunnar er 100% náttúruleg samsetning hennar en hún er unnin úr afskurði af sjávarfangi. Notkun hennar hraðar mjög upptöku næringar í vöðvum og styrkir ónæmiskerfið. Unbroken er vottuð sem örugg vara (GRAS) hjá Fæðu- og lyfjaeftirliti Bandaríkjann (FDA) og þá er reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsnefndar Ólympíunefndarinnar (WADA) fylgt við framleiðslu hennar,“ segir í tilkynningunni.

„Fjárfestingin gefur ÚR tækifæri til að víkka út starfsemi sína. Félagið öðlast nýja reynslu og þekkingu á sviði líftækni sem mun hjálpa okkur við hámarka virði afurða okkar. Eftir að hafa prófað Unbroken sjálfur með frábærum árangri er ég sannfærður um að Unbroken er einstakt tækifæri fyrir okkur til að hefja þá nauðsynlegu vegferð sem líftækni bíður uppá fyrir íslenskan sjávarútveg," er haft eftir Runólfi V. Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Reykjavíkur í tilkynningunni.

„Með aðkomu ÚR skapast enn frekari tækifæri fyrir vöxt félagsins og þróun nýrra lausna í sjávarlíftækni. Fjárfesting ÚR er viðurkenning á því þróunarstarfi sem félagið hefur stundað á undanförnum árum. Við lítum björtum augum á samstarfið,“ segir Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Zym Ice í fréttatilkynningu.

Þá er jafnframt greint frá því að ÚR - Innovation ehf. sé nýstofnað dótturfélag Útgerðarfélags Reykjavíkur sem hafi að markmiði að vinna að nýsköpun, rannsóknum og vöruþróun í sjávarútvegi og eigið fé dótturfélagsins sé 150 milljónir króna.