*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 27. október 2019 09:44

Úr fjórum í eitt

Á Austurlandi verður til landfræðilega stærsta sveitarfélag landsins eftir að íbúar samþykktu sameiningu fjögurra sveitarfélaga.

Ritstjórn
Horft yfir Seyðisfjörð.
Haraldur Guðjónsson

Íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa samþykkt tillögu um að sveitarfélögin fjögur verði sameinuð í eitt. Kosningaþáttakan var frá tæplega 54% upp í 78% en niðurstaðan var þessi:

  • 64,7% kjósenda í Borgarfjarðarhreppi kaus með sameiningu. Kjörsókn var 71,6%.
  • 63,7% kjósenda í Djúpavogshreppi kaus með sameiningu. Kjörsókn var 78%.
  • 92,9% kjósenda í Fljótsdalshéraði kaus með sameiningu. Kjörsókn var 53,6%.
  • 86,7% kjósenda í Seyðisfjarðarkaupstað kaus með sameiningu. Kjörsókn var 70,7%.

Við sameiningu sveitarfélaganna verður til nýtt sveitarfélag með um fimm þúsund íbúa. Sveitarfélagið verður landfræðilega langstærsta sveitarfélag landsins sem nær yfir um 11 þúsund ferkílómetra.

Áætlað er að nýtt sveitarfélag taki formlega til starfa á fyrri hluta næsta árs. Fram að þeim tíma starfa sveitarfélögin fjögur og sinna þeim verkefnum og þeirri þjónustu sem sveitarfélögin bera ábyrgð á.

Nafn nýs sveitarfélags liggur ekki fyrir. Ný sveitarstjórn mun velja nafnið en líklegt er að haldin verði íbúakosning þar sem valið verður á milli tillagna frá íbúum.