„Það má segja að ég hafi verið meira eða minna á sjónum síðastliðin tólf ár. Ég tók mér að vísu pásur meðan ég var í skóla og ég starfaði í tvö ár hjá Ingvari Helgasyni ehf. en þess á milli hef ég verið á sjónum. Sjómennska hefur verið mitt aðalstarf frá 2008,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir í viðtali við Fiskifréttir.

„Ég á eins og hálfs árs gamlan dreng og sótti sjóinn fram á þrítugustu og fyrstu viku meðgöngunnar en tók nokkurra mánaða fæðingarorlof eftir að hann fæddist,“ segir Steinunn.

Hlunnar ehf. sem gerir út Blossa ÍS er í eigu fjölskyldu Steinunnar. Blossi er tíu tonna bátur og rær Steinunn með Birki bróður sínum. Auk þess að gera út bát rekur fjölskyldan harðfiskverkun á Flateyri.

„Átján ára lauk ég námi í förðun og fór aftur heim á Flateyri. Báturinn var þá tiltölulega nýr og mig langaði að prófa að vera á sjó. Margir sögðu að ég gæti þetta ekki og þá varð ég náttúrulega að afsanna það þrátt fyrir að vera mjög sjóveik. Ég hef reyndar alltaf verið sjóveik og er það enn, mest í skammdeginu. Í mínum huga væri ekkert mál að vera á sjó ef maður væri ekki sjóveikur.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Fiskifrétta. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast Fiskifréttir hér að ofan undir liðnum Tölublöð.