Eftir að hafa sinnt þessum fjölmörgu krefjandi störfum þótti Monicu Dodi, frumkvöðlafjárfesti, vera kominn tími til að breyta til og takast á við annars konar verkefni.

„Þriðji kaflinn felur það svo í sér að ég fór hinum megin við borðið og fór að fjárfesta í frumkvöðlafyrirtækjum. Ég starfaði hjá SoftBank Capital sem er stórt frumkvöðlafjárfestingafyrirtæki sem var stofnað af vinum mínum. Þetta starf var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Þarna komst ég einnig að því að mig langaði að leggja það fyrir mig að verða frumkvöðlafjárfestir.

Að loknum tíma mínum hjá SoftBank Capital stofnaði ég ásamt fleirum Women's Venture Capital Fund, sem er sjóður sem fjárfestir í frumkvöðlafyrirtækjum. Við stofnun sjóðsins gat ég nýtt mér reynslu mína við að koma nýjum fyrirtækjum á fót. Einnig þótti mér mikilvægt að veita konum sem eru frumkvöðlar stuðning, þar sem rétt undir 5% af frumkvöðlafjárfestingum á þessum tíma fóru til frumkvöðlafyrirtækja þar sem konur voru meðal stofnenda. Ég kom þarna auga á tækifæri sem fólst í því að hefðbundnir fjárfestar voru ekki að fjárfesta í frumkvöðlafyrirtækjum kvenna og því gat ég komið inn og fjárfest í fjölmörgum frábær um frumkvöðlafyrirtækjum kvenna. Ástæður þess að hefðbundnir fjárfestar voru ekki að fjárfesta í frumkvöðlafyrirtækjum kvenna hefur eflaust eitthvað með þægindaramma að gera, fólk vill gera hlutina eins og það hefur alltaf gert þá," segir Monica.

Fjölbreytileiki lykill að árangri

„Rétt eins og flestir aðrir sjóðir höfum við sérstakar áherslur. Landfræðilega séð þá einblínum við á vesturströnd Bandaríkjanna og við leggjum mikið upp úr því að fjárfesta í frumkvöðlum af báðum kynjum. Einnig leggjum við mikið upp úr fjölbreytileika, til dæmis með tilliti til aldurs, þjóðernis og kynþáttar. Að okkar mati er fjölbreytileiki lykillinn að árangri, þar sem mörg ólík sjónarhorn á hina ýmsu hluti komast til skila þegar fjölbreytileiki er til staðar. Við fjárfestingar okkar einblínum við á frumkvöðlafyrirtæki sem vinna með stafræna miðla, netverslun eða hugbúnaði," segir Monica.

Stjórnvöld hvetji til nýsköpunar

Á síðastliðnum árum virðist vera að nýsköpun hafi fengið aukna athygli frá stjórnvöldum. Árið 2012 voru viðskiptaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sameinuð í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Áherslan á nýsköpun endurspeglast í nafngift ráðuneytisins, auk þess sem fram kemur á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að opinber stefnumörkun og aðgerðir til að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun séu eitt meginviðfangsefni stjórnvalda til að stuðla að alþjóðlega samkeppnishæfu atvinnulífi og aukinni verðmætasköpun, þvert á atvinnugreinar.

Spurð um hvað stjórnvöld geti gert til að stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfi, nefnir Monica stofnun á vegum bandarískra stjórnvalda sem gott dæmi um hvernig önnur stjórnvöld geti hvatt til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs.

„Stjórnvöld geta stuðlað að nýsköpun með aðgerðum sem hvetja frumkvöðla til nýsköpunar. Það koma reglulega fram góðar nýsköpunarhugmyndir sem þurfa aðstoð við fjármögnun og ég tel mikilvægt að stjórnvöld aðstoði frumkvöðla við að hrinda slíkum hugmyndum í framkvæmd. Til dæmis er stofnun á vegum bandarískra stjórnvalda sem heitir SBA (Small Business Administration), en hlutverk hennar er að stuðla að nýsköpun og aðstoða lítil frumkvöðlafyrirtæki. SBA hjálpar litlum frumkvöðlafyrirtækjum við að komast í samband við fyrirtæki, svokölluð SBIC (Small Business Investment Company), en slík fyrirtæki eru einkarekin og fjárfesta mikið í litlum frumkvöðlafyrirtækjum. Stjórnvöld allra landa í heiminum geta því til dæmis stuðlað að aukinni nýsköpun með því að koma slíkum stofnunum á fót," segir Monica.

Hár byrjunarkostnaður erfiður

Oft getur reynst erfitt fyrir frumkvöðlafyrirtæki að koma sér af stað, þar sem yfirleitt fylgir því mikill kostnaður að koma nýju fyrirtæki á fót. Monica segir að það séu ýmsar fjármögnunarleiðir í boði fyrir frumkvöðla, en bendir á að það sé langt frá því að vera auðvelt að hefja starfsemi nýs fyrirtækis.

„Það eru ýmsar leiðir til að koma frumkvöðlafyrirtæki af stað. Meðal annars er hægt að fá inn fé frá fjárfestum eða með því að nota eigin sparnað. Þegar ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki fjármagnaði ég starfsemi þess með sparifé mínu. Auk þess komst ég yfir lánsfjármagn með því að taka bankalán. Það er einnig mögulegt fyrir frumkvöðlafyrirtæki að fá fjölskyldu og vini til að fjárfesta í fyrirtækinu. Þetta veltur einnig svolítið á því hvernig fyrirtæki er verið að stofna. Það er til dæmis mun auðveldara að stofna internetfyrirtæki heldur en framleiðslufyrirtæki, þar sem það þarf mun minna fjármagn til þess að koma internetfyrirtæki á laggirnar heldur en framleiðslufyrirtæki. Það er einnig mikill kostur fyrir frumkvöðlafyrirtæki að þurfa ekki að dæla miklu magni af peningi inn í fyrirtækið áður en peningur fer að skila sér til baka. Því hærri sem byrjunarkostnaðurinn er, því erfiðara er að koma starfseminni í gang.

Helsta vandamál frumkvöðlafyrirtækja er hins vegar næsta skrefið eftir að hafa fengið fjárfestingu til þess að koma sér af stað, þegar þau þurfa aukið fjármagn til þess að geta stækkað," segir Monica.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .