Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. hélt lokað útboð á víxlum í tveimur flokkum þriðjudaginn 24. nóvember sl. fyrir milligöngu Arctica Finance hf.. Þetta er annað útboð félagsins á árinu en það fyrra fór fram í ágúst sl. Í fréttatilkynningu vegna málsins kemur fram að útboðið hafi heppnast mjög vel, líkt og hið fyrra, og borist hafi tilboð að fjárhæð 3.060 milljónum króna frá 13 aðilum. ÚR hafi ákveðið að taka tilboðum fyrir 2.360 milljónir króna á 3,54% meðaltals vöxtum og voru þeir 0,28% lægri en í fyrra útboðinu.

„ÚR er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur áherslu á arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með stefnumótandi fjárfestingum í aflaheimildum og traustum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi og Grænlandi hefur félagið byggt upp eignir að verðmæti um 430 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall félagsins var 55,7% á miðju ári 2020. Rekstur félagsins er í dag þríþættur. Í fyrsta lagi er ÚR hefðbundið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, sérhæft í rekstri frystitogara. Í öðru lagi er félagið stærsti hluthafinn í Brim hf. sem er eina skráða sjávarútvegsfélagið á Íslandi og í þriðji lagi vinnur félagið að nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi í gegnum dótturfélagið ÚR Innovation,“ segir í fréttatilkynningu ÚR.

„Árangurinn í þessu öðru útboði staðfestir áhuga fagfjárfesta á íslenskum sjávarútvegi. Öflug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta boðið fjárfestum frábæra fjárfestingakosti. ÚR hefur stefnt á það lengi að vinna með íslenskum fjárfestum við uppbyggingu á nútímalegum sjávarútvegi í fremstu röð í heiminum. Árangurinn í útboðinu sýnir að ÚR er á réttri leið," segir Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, í tilkynningunni.