Jón Björnsson tók við sem forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Origo undir lok ágústmánaðar á síðasta ári, fyrir rúmlega hálfu ári. Tók hann við starfinu af Finni Oddssyni sem lét af störfum til að taka við forstjórastarfinu hjá Högum. Jón segir fyrstu mánuðina í starfi hafa verið lærdómsríka.

„Þetta er að einhverju leyti nýr geiri fyrir mig þannig að fyrstu vikurnar og mánuðirnir hafa farið í að kynnast uppbyggingu fyrirtækisins, vörunum sem það selur og starfsfólkinu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek við nýju starfi í miðjum heimsfaraldri og fyrstu vikurnar fóru svolítið í að koma sér inn í skipulagið innanhúss." Skömmu eftir að Jón tók við skall önnur bylgja faraldursins á hér á landi og segir Jón að þá hafi nánast allir starfsmenn verið sendir heim í fjarvinnu. Þar með færðust samskipti innan fyrirtækisins nær alfarið yfir á fjarfundabúnað. „Ég er enn að hitta starfsfólk á fjarfundum sem ég hef aldrei séð í persónu. Það hefur verið athyglisvert að hefja störf á tímum sem þessum."

Spurður hvort það hafi verið krefjandi að taka við nýju starfi undir þessum kringumstæðum segir Jón að þetta ástand sé krefjandi fyrir alla. „Það á bæði við um mig sem og aðra stjórnendur. Það er krefjandi að reka fyrirtæki við þessar aðstæður en það má svo sem segja að allar stórtækar breytingar séu krefjandi." Hann segir fjarvinnu fela í sér fjölmarga kosti, en viðurkennir að hann sakni hlutanna sem hægt er að leysa á örfáum mínútum þegar allir starfsmenn eru á skrifstofunni og hugmyndanna sem verða til í spjalli við kaffivélina. „Ég sakna þess einnig að geta smalað fólki saman inn í herbergi á hugmyndafundi fyrir framan töflu þar sem allir leggja höfuðið í bleyti og kasta fram hugmyndum. Það er erfiðara að taka svoleiðis fundi í gegnum fjarfundabúnað."

Jón bendir á að það hafi reynst auðveldara fyrir Origo að laga sig að fjarvinnu í COVID-19 faraldrinum heldur en mörgum öðrum félögum. „Þetta nýja vinnuumhverfi hentar okkar fyrirtæki ágætlega, þar sem við sem upplýsingatæknifyrirtæki höfum mikla þekkingu á þessum fjarvinnulausnum. Þetta hefur gefið starfsfólkinu okkar aukinn sveigjanleika og það eru því ákveðin tækifæri sem felast í þessu breytta vinnuumhverfi fyrir fyrirtækið í heild."

Starfið þarf að vera spennandi

Áður en Jón tók við forstjórastarfinu hjá Origo hafði hann greint frá því opinberlega að hann hefði áhuga á að stýra tæknifyrirtæki. Því lék blaðamanni forvitni á að vita hvort með ráðningu sinni til Origo hafi gamall draumur verið að rætast.

„Ég hef mest verið hjá fyrirtækjum sem starfa á neytendamarkaði og mín áhersla í þeim hefur verið að reyna að koma á ákveðnum breytingum þar varðandi vöruframboð, vörumerki eða stefnu, sem eru nær þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í nútímanum. Til þess hef ég lagt áherslu á að nýta þá tækni sem er að ryðja sér til rúms. Því hef ég haft orð á því að ég myndi hafa gaman af því að prófa að vera aðeins í nýja heiminum, ef við köllum þetta gamla og nýja heiminn."

Hann kveðst þó ekki endilega geta tekið undir það að með þessu hafi gamall draumur ræst. „Ég hef einbeitt mér að því að vinna hjá fyrirtæki sem mér finnst áhugavert á vissum tíma og á vissum stað. Þá finnst mér það spennandi. Fyrirtæki sem mér þykir spennandi á vissum tímapunkti getur svo á öðrum tímapunkti orðið óspennandi fyrir mér. Þannig hefur það verið með þau fyrirtæki sem ég hef komið að, þau voru spennandi fyrir mig á þeim tíma sem ég gekk til liðs við þau. Þegar ég hef svo farið út úr þeim er það vegna þess að þau voru ekki lengur spennandi fyrir mig, en á sama tíma eflaust verið spennandi fyrir ýmsa aðra," segir Jón og bætir við að hann telji það geta verið varasamt að sitja of lengi í forstjórastól innan sama fyrirtækis.

Nánar er rætt við Jón í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom nýlega út. Hægt er að skrá sig í áskrift hér .