Ágúst og Lýður ólust upp í Bakkavörinni á Seltjarnarnesi og þaðan er nafnið á fyrirtækinu komið. Í æsku fóru þeir í sveit á sumrin, báru út Morgunblaðið og sinntu ýmsum hefðbundnum störfum. Að eigin sögn slógust þeir eins og hundur og köttur sem krakkar en þegar líða tók að menntaskólaárunum sögðu þeir skilið við handalögmál og síðan hefur samstarfið verið einstaklega gott.

Það tók bræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni – eða Bakkabræður eins og þeir eru gjarna kallaðir – ekki langan tíma að komast í hóp auðugustu manna landsins og jafnvel þótt leitað væri út fyrir landsteinana. Skömmu fyrir aldamótin voru þeir í forsvari fyrir meðalstórt framleiðsluog sölufyrirtæki í sjávarafurðum, árið 1998 veltu þeir 700 milljónum króna og skiluðu 20 milljónum í hagnað. Reksturinn var lengst af basl og fæstir höfðu hugmynd um tilvist Bakkavarar sem verkaði hrogn á Suðurnesjunum. Fimm árum seinna var veltan hins vegar komin upp í 20 milljarða króna og hagnaðurinn nam 7,5 milljörðum. Undir lok síðasta árs var veltan yfir 200 milljarðar króna og hafði 300-faldast á tæpum áratug. Þetta eru ótrúlegar veltutölur sem endurspegla mikla verðmætasköpun Bakkavarar og seinna annarra fyrirtækja bræðranna, sér í lagi Existu.

Síðan hafa miklar sviptingar orðið á mörkuðum og markaðsverð Existu, helstu eignar bræðranna, sem fyrir ári var um 570 milljarðar, er í dag komið niður fyrir 100 milljarða. Aðeins eitt félag hefur lækkað meira í Kauphöllinni það sem af er árinu.

______________________________________

Í fimmtu grein greinaflokks Viðskiptablaðsins, Auður og völd, er ítarlega fjallað um viðskiptaveldi þeirra Bakkabræðra, eins og þeir eru gjarnan kallaðir . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .