Grásleppuveiðar gengu býsna vel á vertíðinni í sumar. Aflakóngur varð Hafþór Hafsteinsson á bátnum Djúpey BA 151, sem hann gerir út frá Flatey á sumrin. Hann veiðir í innanverðum Breiðafirði, landaði 56,2 tonnum í sumar og er afar sáttur við útkomuna, þótt veiðin hafi reyndar ekki verið neitt sérstök framan af.

„Júní var bara mjög lélegur, alla vega hérna hjá okkur. Það var bara engin grásleppa. Svo var það hvað, 3. til 4. júlí þá fylltist bara allt af grásleppu. Það var eiginlega sama hvar maður var með netin, hún var alls staðar. Þetta er mjög sjaldgæft að það komi svona góð veiði í júlí eins og núna. Í Breiðafirðinum hefur besta veiðin alltaf verið í júní.“

Hafþór hefur stundað grásleppuna frá unga aldri en segir vertíðina í sumar hafa verið með þeim allra bestu.

Rauðmaginn kúlaður og hengdur
„Svo kom fullt af rauðmaga líka,“ bætir Hafþór við. „Það er mjög sjaldgæft að svona mikill rauðmagi komi í júlí.“

Rauðmaginn er að sjálfsögðu nýttur.

„Við borðum hann nýjan, svo reyki ég aðeins og hef líka prófað að hengja hann upp, kúla hann og hengja upp eins menn gera á grásleppunni.“

Landssamband smábátaeigenda greindi frá því við vertíðarlok að aflaverðmæti þeirra 240 báta sem stunduðu veiðarnar í sumar hafi verið nálægt 1,6 milljarði, sem er rúmlega helmings aukning frá síðustu vertíð.

Heildaraflinn varð 4.974 tonn sem var aðeins 147 tonnum meira en það sem Hafrannsóknastofnun lagði til.

Verðið sem fékkst fyrir grásleppuna í sumar varð með besta móti.

„Verðið hefur verið mjög fínt, það var aftur orðið svipað eins og var 2010,“ segir Hafþór og eru þetta töluverð viðbrigði frá því sem verið hefur undanfarin ár.

„Sérstaklega frá því fyrir svona þremur árum, þetta er orðið allt annað.“

Félagi Hafþórs er Friðrik Einarsson, en saman gera þeir út bátana Djúpey BA og Hafsvölu BA. Þeir stunda báðir grásleppuveiðar frá Flatey á sumrin en færa sig þegar hausta tekur yfir til Stykkishólms þaðan sem þeir veiða ígulker á veturna.

Útgerð þeirra er sú eina sem stunduð er í Flatey nú orðið. Hafþór bjó í Flatey áður fyrr en hætti að vera þar á veturna fyrir áratug eða rúmlega það.

„Ég hef verið þar svona fimm mánuði yfir sumarið nú orðið,“ segir Hafþór.

Ekkert ósvipuð rækju á bragðið
Ígulkeraveiðarnar hófust í ágúst, fljótlega eftir að grásleppuvertíðinni lauk. Þær hafa gengið býsna vel.

„Við tókum eitthvað um 140 tonn í fyrravetur, ætli það verði ekki eitthvað svipað núna. Svo er ég svolítið í kúskel líka.“

Hafþór segir ígulkerin að stærstum hluta seld til Frakklands. Að mestu eru þau flutt út fersk.

„En svo er vinnslan alltaf að aukast hér í Hólminum. Þórishólmi hér er búinn að vera að minnsta kosti 10 til 15 ár í þessu. Ég var nú reyndar að veiða hérna líka ígulker á árunum 1993 til 95. Þá var ég með bátinn minn í því.“

Hann segist vissulega hafa smakkað ígulkerin.

„Þau eru svo sem ágæt, dálítið mismunandi á bragðið eftir litnum á þeim. Sum eru ekkert ósvipuð rækju á bragðið.“