Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmt til að greiða Glitni HoldCo tæplega tvo milljarða króna, með dráttarvöxtum frá 6. maí 2016. Því til viðbótar þarf félagið að greiða tólf milljónir króna í málskostnað.

Umrætt mál var upphaflega höfðað árið 2012 en fellt niður í ársbyrjun 2016 eftir að útivist varð hjá lögmanni Glitnis. Málinu var stefnt inn að nýju í apríl 2016. Glitnir hafði höfðað málið til innheimtu á 31 afleiðusamningi sem gerðir voru á árinu 2008 en allir fólu þeir í sér framlengingu á eldri samningum sem voru í tapi fyrir ÚR á gjalddaga.

Nokkuð hefur verið fjallað um málið í gegnum árin en ÚR, sem hét Brim á þeim tíma er samningarnir voru gerðir, taldi meðal annars að samningarnir hefðu verið falsaðir, þeir klipptir sundur og límdir saman til að renna stoðum undir málstað Glitnis. Félagið hefur kært þá meintu háttsemi til lögreglu.

Ætla að framlengja í allri Brim súpunni ha ha ha

Í málsástæðukafla Glitnis kemur fram að félagið hafi frá upphafi talið að umræddir samningar væru bindandi fyrir ÚR. Útgerðarfélagið hefði ekki getað gert ráð fyrir því að afleiðusamningar sem hefðu falið í sér nettó skuld fyrir ÚR yrðu ávallt framlengdir enda kveðið á um annað í skilmálum. Virki gjaldeyrismarkaða gæti ekki breytt neinu fyrir gildi samninganna með hliðsjón af eðli þeirra.

ÚR krafðist á móti sýknu. Í fyrsta lagi var byggt á því að samningur hefði ekki komist á þar sem að þar til bær aðili hefði ekki undirritað þá. Hluti umræddra samninga hefði verið undirritaður af þáverandi fjárreiðustjóra ÚR sem hefði ekki haft umboð til slíkra verka. Hluti samninganna, dagsetti 6. og 7. október 2008, hefði síðan ekki verið undirritaðir af hálfu ÚR og því gætu þeir ekki haft neitt gildi. Taldi ÚR meðal annars að starfsmaður hins fallna Glitnis hefði ákveðið að framlengja samningana einhliða.

„Komi það raunar fram í endurriti símtals frá 7. október 2008, milli [þáverandi starfsmanns markaðsviðskipta Glitnis og fyrrverandi fjárreiðustjóra ÚR]. Samtal þess sé athyglisvert fyrir margra hluta sakir, m.a. þeirra að þar lætur starfsmaður [Glitnis] þriðja manni í té trúnaðarupplýsingar um [ÚR] en þar upplýsir [starfsmaðurinn] að hann ætli að „framlengja allri Brim súpunni í eina viku ha ha ha“,“ segir meðal annars í málsástæðukafla ÚR.

ÚR byggði einnig á því að Glitnir HoldCo hefði ekki tekið við umræddum samningum áður en gjalddagi þeirra rann upp. Skuldbindingar beggja aðila samkvæmt þeim hefðu því með réttu átt að falla niður. Var það stutt þeim rökum að þegar skilanefnd tók yfir Glitni hefði komið fram að almenn bankastarfsemi héldist óbreytt og enn yrði „hægt að stunda viðskipti í ISK.“ Gagnályktun frá því leiddi til þess að viðskipti í öðrum gjaldmiðlum hefðu fallið niður.

Auk alls þess byggði ÚR á því að Glitnir hefði verið kominn í aðstöðu sem jafna megi til greiðsluþrots löngu áður en skilanefnd tók við bankanum. Var þar vísað til dómsskjala í ýmsum málum sem bankinn hefur höfðað í gegnum tíðina. Þá bendi ýmislegt til þess að Glitnir hafi tekið sér stöðu gegn íslensku krónunni mánuðina fyrir hrun og með því gengið gegn hagsmunum ÚR samkvæmt afleiðusamningunum. Að öllu þessu virtu bæri að ógilda samninganna með vísan til ógildingareglna samninga- og fjármunaréttarins enda hefði Glitnir ekki verið í góðri trú. Krafa um skuldajöfnuð var einnig höfð uppi.

Samningarnir ekki framseldir þriðja aðila

Nokkur fjöldi vitna kom fyrir dóminn. Í þeirra hópi voru Haukur C. Benediktsson, starfsmaður Seðlabanka Íslands, og Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður bankans vegna mála er vörðuðu stöðugleikaframlög. Í vætti þeirra kom fram að umræddir afleiðusamningar hefðu ekki runnið til Seðlabankans í formi stöðugleikaframlags. Dómurinn féllst á að samningarnir hefðu ekki verið framseldir frá Glitni HoldCo til þriðja aðila.

Í niðurstöðu dómsins, sem var fjölskipaður, kemur fram að Guðmundur Kristjánsson hafi undirritað fyrsta afleiðusamninginn í janúar 2003. Í febrúar 2005 undirritaði hann almenna skilmála vegna markaðssviðskipta félaganna tveggja en í viðauka við þann samning var fyrrverandi fjárreiðustjóra ÚR veitt umboð til að eiga viðskipti við Glitni á grunni skilmálanna. Virðist það fyrirkomulag hafa verið upp síðan þá. Var það því mat dómsins að umræddur fjárreiðustjóri hefði haft umboð til að undirrita samningana og framlengingar á þeim.

Í dóminum er það einnig rakið hvernig Glitnir og ÚR hefðu átt í nokkuð umfangsmiklum viðskiptum á þessum tíma og allur gangur hafi verið á því hvernig staðið hafi verið að þeim. Í vitnisburði starfsmanna Glitnis kom fram að stundum hefðu beiðnir um framlengingu komið fram í símtali, stundum í tölvupósti og í enn öðrum tilvikum með skilaboðum í gegnum MSN. Þá hefði allur gangur verið á því hvort umrædd skjöl hefðu verið undirrituð eða ekki. Var því talið að stjórnendur ÚR hefðu þekkt ágætlega til eðli viðskiptanna og hvernig var staðið að gerð þeirra hjá Glitni.

ÚR átti ekki „cash“ til að efna samninginn

Í dóminum má einnig finna endurrit af símtali milli Guðmundar Kristjánssonar og fyrrverandi forstöðumanns gjaldeyrisviðskipta hjá Glitni. Það símtal er frá 1. október 2008 og varðaði samninga sem voru á gjalddaga eftir helgi.

„Minnist Guðmundur á það í símtalinu að félagið sé með „400 og eitthvað milljónir“ á gjalddaga í næstu viku eða þar næstu viku. Fær [Guðmundur] upplýsingar um hvaða möguleikar séu í stöðunni vegna þessa og kom meðal annars fram að félagið gæti lokað samningunum ef krónan myndi ekki styrkjast fljótlega,“ segir í dóminum.

Upplýsir Guðmundur að félagið eigi „kannski ekki tvo milljarða í cash-i“ en forstöðumaðurinn svarar að félagið gæti reynt að ýta tapinu á undan sér. Í símtali daginn eftir segir Guðmundur að ÚR sé með „allt of stóra stöðu“ hjá Glitni og að það sé „komið út fyrir öll velsæmismörk“. Staðan sé ekki góð. Í lok símtalsins segir Guðmundur „já, já, ok það sem við framlengjum og er í mínus það er þá á yfir 20% vöxtum“.

„Þegar framangreind símtöl milli aðila um þá samninga sem voru á gjalddaga 6. og 7. október 2008 eru metin heildstætt, má sjá að [Guðmundur] var vel meðvitaður um þá samninga og að þeir voru í miklu tapi vegna gengishruns íslensku krónunnar. Má einnig sjá að [Guðmundur] veltir fyrir sér hvaða möguleikar séu í stöðunni til að vinna niður „stöðuna“ og fær upplýsingar um að best sé að loka samningunum og gera þá upp en þar sem stefndi eigi ekki nægt fjármagn geti hann reynt að framlengja viðskiptunum með því að ýta tapinu á undan sér en að það muni vera dýrt,“ segir í dóminum. ÚR hafi í raun verið í brýnni þörf að gera nýja samninga þar sem félagið gat ekki efnt þá eldri á gjalddaga.

Var það því mat dómsins að umræddir samningar hafi verið aðgengilegir starfsmönnum ÚR þegar eftir sendingu þeirra þann 8. október 2008. Gögn málsins bentu ekki til þess að ÚR hefði gert athugasemd við samninganna strax eftir gerð þeirra og mánuðina þar á eftir. Taldi dómurinn að félagið hefði þurft að hafa uppi mótbárur vegna samninganna.

Þar sem það var ekki gert hafi þeir komist á. Samkvæmt þeim átti Glitnir að afhenda ÚR á upphafsdegi viðskiptanna erlendar myntir gegn greiðslu í íslenskum krónum, miðað við tiltekið stundargengi en ÚR átti á lokadegi samninganna að afhenda Glitni sömu erlendu mynt gegn greiðslu í íslenskum krónum, samkvæmt framvirku gengi sem nam stundagenginu að viðbættu álagi.

ÚR vissi af áhættu sem viðskiptunum fylgdi

Við mat á því hvort ógilda ætti samninganna sagði dómurinn að afleiðuviðskipti væru í eðli sínu mjög áhættusöm. Guðmundur hefði staðfest með undirritun sinni að hann vissi af áhættunni þeim þeim fylgdi.

„Eins og fram hefur komið er [ÚR] sjávarútvegsfyrirtæki sem flytur út fisk og hefur tekjur í erlendum myntum. Þau viðskipti sem samningarnir lúta að tengjast eðlilegri stýringu á gjaldeyrisáhættu stefnda í þeim tilgangi að verja félagið fyrir gengisbreytingum í rekstri. Miðað við framlögð gögn verður að ætla að [ÚR], sem er umsvifamikið útgerðarfélag, hafi átt að vera kunnugt um eðli þessara áhættuskipta enda liggur fyrir að [ÚR] hafði margsinnis í fjölda ára stundað viðskipti sem þessi sem áhættuvörn. Þá breytir engu í því sambandi þótt [ÚR] hafi haft aðra hagsmuni af gengi krónunnar í ljósi þess að tilgangur viðskiptanna var ekki að fjárfesta heldur að verja [ÚR] gegn gengisáhættu,“ segir í niðurstöðu dómsins. Var því hafnað að ógilda samningana.

Kröfu ÚR um greiðslu skaðabóta, sem hefði átt að koma á móti kröfu Glitnis var síðan hafnað. ÚR taldi sig eiga rétt á bótum vegna þeirrar háttsemi Glitnis að taka sér stöðu gegn íslensku krónunni. Á það féllst dómurinn ekki.

Sem fyrr segir varð niðurstaðan því sú að ÚR þarf að greiða 2 milljarða króna auk dráttarvaxta frá maí 2016 og 12 milljónir í málskostnað.