Ari Kristinn Jónsson, sem undanfarin 11 ár hefur gegnt stöðu rektors við Háskólann í Reykjavík, mun taka við stöðu forstjóra netöryggisfyrirtækisins AwareGO. Greint er frá ráðningu Ara í fréttatilkynningu.

„Fyrirtækið hefur vaxið hratt undanfarin tvö ár en þar starfa nú hátt í 30 starfsmenn á skrifstofum á Íslandi, í Bandaríkjunum, Tékklandi og Króatíu. Fráfarandi forstjóri og einn af stofnendum AwareGO, Ragnar Sigurðsson, mun starfa áfram hjá fyrirtækinu sem helsti sérfræðingur fyrirtækisins í netöryggismálum.  Framundan hjá AwareGO er svokallað „Series A" fjármögnunarferli til að styðja við frekari vöruþróun og sókn á nýja markaði. Eyrir Invest er stærsti einstaki fjárfestir AwareGO og hefur stutt fyrirtækið dyggilega síðastliðin þrjú ár,“ segir í fréttatilkynningu.

„AwareGO he​fur þróað lausn fyrir fyrirtæki og stofnanir til að meta veikleika öryggiskerfa og leiðir til að bæta úr þeim. Lausnin er frábær og hefur mikla alþjóðlega möguleika. Til þess að byggja AwareGO upp sem öflugt alþjóðlegt fyrirtæki þarf reynslumi​kinn stjórnanda með víðtæka þekkingu og tengsl á þessu sviði. Við bjóðum Ara velkominn til starfa. Reynsla, þekking og tengsl hans munu án efa styrkja AwareGO og það frábæra teymi sem þar er á þeirri vegferð að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum í því að bæta netöryggi,“ segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður AwareGO og Eyris Invest, í fréttatilkynningu.

Ari Kristinn, sem er með doktorspróf frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum, gegndi stöðu forseta tölvunarfræðideildar HR í þrjú ár áður en hann tók við sem rektor og starfaði þar áður hjá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna, sem vísindamaður og stjórnandi. Hann er sérfræðingur á sviði gervigreindar og sjálfvirkni og hefur sterk tengsl við alþjóðlega tækni- og þróunarsamfélagið.

„Það er gríðarlega spennandi að fá að taka þátt í því sem framundan er hjá AwareGO.  Líf okkar allra, þar með talið viðskipti, afþreying og stjórn hluta, er allt að færast á netið. Á sama tíma stendur vaxandi ógn af tölvuglæpum, eins og sést hefur í fréttum undanfarið. Veikasti hlekkurinn í net- og gagnaöryggismálum er mannfólkið sjálft og því skiptir svo miklu máli að fræða og þjálfa fólk til að loka fyrir þann leka. AwareGO er í sérflokki þegar kemur að þessu viðfangsefni, með þjálfunarefni og aðferðir sem ná sérstaklega vel til fólks, samtvinnað við hugbúnaðarkerfi sem metur mannlega áhættuþætti og ráðleggur hvar úrbóta er helst þörf. Á næstu mánuðum og árum mun AwareGO því halda áfram að vaxa hratt, bæði í mannskap og í fjölda viðskiptavina, og það verður virkilega gaman að fá að styðja við þá þróun í samstarfi við þann frábæra hóp sem fyrir er í fyrirtækinu,“ segir Ari Kristinn í fréttatilkynningu.

„AwareGO er alþjóðlegt fyrirtæki sem býður upp á netöryggisþjálfun og lausnir sem aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að bæta öryggisvitund starfsfólks og verja sig þannig gegn helstu netógnum. Þjálfunarmyndböndum AwareGO fer stöðugt fjölgandi en þau nýta sér aðferðir auglýsingabransans með stuttum og hnitmiðuðum skilaboðum til að koma öryggisskilaboðunum á framfæri. AwareGO hefur nú þjálfað yfir 8 milljónir manns um allan heim,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.