Íslenskir verslunarrisar eru ekki margir en það einkennir þá stærstu að þeir hafa leitað mikið út fyrir landsteinana undanfarinn áratug.

Fjölskylduveldi Jóns Helga Guðmundssonar sækir upphaf sitt í Kópavoginn en teygir nú anga sína inn á barrskógasléttur Rússlands auk þess sem fjárfest hefur verið í olíusandi á sléttum Kanada.

Verandi kominn með verulega hlutdeild í verslun á Íslandi hefur hann leitað inn í olíu- og tréiðnað erlendis auk bankastarfsemi í Eystrasaltslöndunum og Rússlandi.

Það er ekki víst að allir átti sig á umsvifum Jóns Helga Guðmundssonar, forstjóra fjárfestingarfélagsins Norvik, enda ná þau til fleiri landa en við Íslendingar eigum að venjast.

Fyrirtækjaveldi Jóns Helga hefur vaxið jöfnum skrefum undanfarin ár og þar sem hann starfar lítt sem ekkert í skráðum félögum hefur hann minna orðið var við sveiflur markaðarins en margir aðrir. Jón Helgi hefur stýrt “hinni” verslunarblokkinni á Íslandi, þ.e.a.s. þeirri sem ekki fellur undir veldi Baugs og viðskiptafélaga þeirra.

Vissulega er Norvikur-veldið minna í sniðum en undir merkjum þess eru þó starfandi um 60 verslanir á Íslandi og fer fjölgandi fremur en hitt. En hvað sem veldur, þá hefur Jón Helgi ekki verið eins fyrirferðarmikill í íslensku viðskiptalífi, eins og sást ágætlega í könnun Viðskiptablaðsins síðasta haust þar sem 500 stjórnendur í viðskiptalífinu voru beðnir að tilnefna þá valdamestu.

Þar var Jóhannes Jónsson með tæplega helmingi fleiri tilnefningar en Jón Helgi og Jón Ásgeir fékk sex sinnum fleiri tilnefningar, en hann var þá talinn annar valdamesti maður viðskiptalífsins. Þeir sem rýna í innviði viðskiptalífsins telja að þessi niðurstaða endurspegli ekki endilega valdahlutföllin eins og þau eru, heldur búi þar að baki meðvituð ákvörðun Jóns Helga um að halda sig frá sviðsljósinu.

________________________________________________

Nánar er fjallað um Jón Helga Guðmundsson í greinarflokki sem fjallar um auð og völd í íslensku viðskiptalífi í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .