*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Frjáls verslun 6. desember 2020 19:02

Úr mokveiði í brælu

Nær algjört tekjufall hefur orðið hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum greinum það sem af er ári.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Þ að hefur ekki blásið byrlega fyrir ferðaþjónustunni það sem af er ári. Í raun hefur ekkert blásið stærstan hluta ársins, allt frá því að kórónuveiran hóf för sína um gnípu og náði ströndum landsins rétt í þann mund sem vertíðin í greininni var að hefjast.

Óhætt er að fullyrða að straumur erlends ferðafólks hingað til lands árin eftir hrun hafi verið einn af meginþáttunum að baki því hve skjótt tókst að rétta úr kútnum. Árin kringum hrun hafði um hálf milljón ferðamanna heimsótt landið ár hvert. Sprenging var hins vegar næstu ár á eftir og átti sú tala eftir að ríflega fjórfaldast.

Hver ferðamaður skildi að meðaltali eftir 120 þúsund krónur hér á landi og árið 2017 var greinin orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins með 42% útflutningstekna þess. Toppnum, enn sem komið er, var náð árið 2018 þegar erlendir ferðamenn skiluðu rúmum 519 milljörðum króna í gjaldeyri inn í íslenska hagkerfið. Því til viðbótar hefur greinin undanfarin ár staðið undir um átta prósentum af vergri landsframleiðslu.

Í fyrra tók aftur á móti að halla undan fæti en þá námu gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 468 milljörðum króna. Margir höfðu áhyggjur þegar bág staða Wow air komst í hámæli haustið 2018 og ekki skánaði útlitið vorið 2019 þegar flugfélagið lagði upp laupana. Síðasta ár fækkaði ferðamönnum um rétt rúm fjórtán prósent milli ára. Þrátt fyrir það var fólk sæmilega bjartsýnt, svona miðað við allt og allt, þegar árið 2020 gekk í garð og veikin í Wuhan var aðeins neðanmálsgrein í helstu fjölmiðlum og annálum.

Það breyttist hins vegar nánast á einni nóttu þegar veiran náði til Evrópu, hélt þaðan yfir Atlantshafið og hafði viðkomu á Íslandi. Bandaríkin riðu á vaðið og lokuðu sínum landamærum í von um að hefta útbreiðsluna þar ytra og önnur ríki fylgdu í kjölfarið. Eins og hendi væri veifað þornuðu ferðamannalindirnar upp líkt og síldarmiðin forðum, þótt ástæðan fyrir hvarfinu væri önnur nú en þá. 

Hefðum þurft fimmföldun

Árangur sóttvarnaaðgerða í vor gaf örlitla von. Unnt var að opna landið á nýjan leik, þó í mýflugumynd miðað við það sem áður var, en augljóst var að ferðavilji útlendinga hafði ekki enn drepið sig úr dróma. Íslendingar voru hvattir til þess að ferðast innanlands, sem var ágæt tilbreyting frá því að vera beðinn um að ferðast innanhúss, og fékk hver fjárráða einstaklingur 5 þúsund krónur að gjöf frá stjórnvöldum sem renna átti til greinarinnar.

Landinn lét sér ekki segja þetta tvisvar og flykktist í dali og firði um land allt. Þótt það hafi gert ástandið eilítið skárra en útlit var fyrir þá dugði það vart til. Sé árið 2019 til að mynda skoðað þá nam neysla erlendra ferðamanna hér á landi 383 milljörðum króna en neysla innlendra ferðalanga 93 milljörðum króna. Íslendingar hefðu því þurft að eyða um fimmfalt meira en á venjulegu ári til að fylla upp í gatið sem túristinn skildi eftir sig.

Milljörðunum sem Mörlandar dreifðu var síðan ekki dreift jafnt niður á alla. Miðað við hljóðið í rekstraraðilum þá voru þeir duglegri en erlendir gestir í að gera vel við sig í mat, drykk og afþreyingu. Gistivenjurnar eru á móti nokkuð aðrar enda margir sem tengdu náttstað sinn við dráttarbeislið og lögðu síðan af stað. Staðan hefur síðan verið einkar slæm hjá aðilum í gistirekstri á höfuðborgarsvæðinu enda voru fáir sem ákváðu að gerast ferðalangar í eigin höfuðborg. Þá hefur lítið verið að frétta, samanborið við venjuleg ár, hjá bílaleigum landsins.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.