Óttar Guðjónsson er í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út núna á fimmtudaginn. Þar segir hann meðal annars að margt í núverandi uppsveiflu sé svipað þeirri sem varð árið 2000, en hún endaði með gengisfellinu árið 2001.

„Við höfum verið mjög heppin í þessari uppsveiflu vegna þess að stór hluti af henni er innflæði af gjaldeyri vegna erlendra ferðamanna. Að öðru leyti lítur þessi uppsveifla út nákvæmlega eins og uppsveiflan árið 2000 sem endaði með gengisfellingu árið 2001. Þá töpuðu mörg heimili eignum sínum en fjöldi heimila var búinn að skuldsetja sig verulega vegna hlutabréfakaupa, sem urðu síðan verðlaus. Þetta er allt gleymt því miður, það hefur snjóað í þau spor, en það er gagnlegt að muna söguna.“

Spurður hvort hann haldi að það hafi þegar fennt í sporin eftir síðustu niðursveiflu í efnahagslífinu og hvort önnur sé í vændum segir Óttar:

„Við kunnum þennan leik svakalega vel. Launahækkanir umfram framleiðni og gengisfelling nokkrum árum síðar samhliða verðbólgu. Ég held hins þegar að þessi leikur skaði ekki heildarframleiðni kerfisins. Frá því að við tókum upp krónu þá höfum við farið úr moldarkofum í glæsihýsi, sem er frábær árangur. Þetta höfum við gert þrátt fyrir að krónan hefur fallið um 99,9% gagnvart danskri krónu á sama tíma.

Þessar sveiflur valda hins vegar óskilgreindum og óstýrðum tilflutningi verðmæta milli kynslóða og þjóðfélagshópa. Þær valda miklum deilum í þjóð­ félaginu, einfaldlega vegna þess að tilflutningurinn er ósanngjarn. Þeir sem tapa yfirleitt mestu á þessu er unga fólkið og, oft á tíðum, eldri borgarar. Það eru einmitt þeir hópar sem ættu síst að tapa á svona sveiflum.“ Óttar segir að þessi þróun hafi valdið miklum tilflutningum á verðmætum frá ungu kynslóð­ inni, sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð, og litlu fyrirtækjunum, sem er að fara af stað, til fjármagnseigenda og lífeyrissjóðanna. „Háir stýrivextir ýta undir þetta og viðhalda þessu. Reglugerðir um að lífeyrissjóðir geri upp miðað við 3,5% raunávöxtun viðhalda einnig þrýstingi á vaxtastigið.“