Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur ráðið Magnús Júlíusson sem aðstoðarmann ráðherra. Magnús mun starfa með Eydísi Örnu Líndal sem fyrir er aðstoðarmaður Áslaugar. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.

Undanfarið hefur Magnús gegnt stöðu forstöðumanns orkusviðs hjá N1 en áður stofnaði hann og rak Íslenska orkumiðlun sem var seld til Festi snemma árs 2020. Festi tilkynnti í gær um að Íslensk Orkumiðlun hafi fengið nýtt nafn, N1 rafmagn.

Magnús hefur jafnframt starfað sem stundakennari við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík um nokkurra ára skeið. Þá átti Magnús sæti í orkustefnunefnd sem mótaði langtímaorkustefnu fyrir Ísland.

Magnús er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur lokið BSc-gráðu í hátækniverkfræði frá Háskóla Reykjavíkur og MSc-gráðu í sjálfbærum orkuvísindum frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi.

Magnús hefur verið virkur í félagsstörfum og hefur meðal annars setið í íslensku UNESCO-nefndinni, gegnt embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, setið í stjórn handknattleiksdeildar Víkings, gegnt embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og setið í háskólaráði Háskólans í Reykjavík.

Magnús er í sambúð með Guðrúnu Gígju Georgsdóttur og eiga þau saman eina dóttur.