Svo gæti farið að erlendir kröfuhafar gömlu bankanna eignist ekki bara hlut í Nýja Kaupþingi, að hluta eða öllu leyti, heldur líka í Íslandsbanka.

Bjartsýni ríkti í gær, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, um að lending myndi nást fyrir föstudaginn 17. júlí en þá rennur út lokafrestur Fjármálaeftirlitsins til að ganga frá uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna. Stærstu kröfuhafar bankanna eru skuldabréfaeigendur.

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að hann væri vongóður um að það næðist eitthvert samkomulag á morgun. „Það er verið að skoða ýmsa möguleika: Erlent eignarhald á einum [bankanna], Kaupþingi og kannski fleirum.“

Spurður hvort hann væri þar að vísa til Íslandsbanka líka svaraði hann því til að það gæti verið lendingin. Hann tók þó fram að FME væri ekki aðili að samningaviðræðunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum .