„Stofnendur voru sjö í byrjun og nú erum við 17 þúsund. Það hefur því mjög margt breyst á 30 árum,“ segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi í samtali við vb.is. Guðbjörg Edda hóf störf hjá Actavis fyrir 30 árum og hefur verið forstjóri síðan árið 2010.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir
Guðbjörg Edda Eggertsdóttir
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

„Það er þó ekki hægt að líta á sem svo að ég hafi verið í sama starfinu allan þennan tíma,“ segir hún.

Guðbjörg fer yfir sögu Actavis í máli og myndum í hádegisfyrirlestri Háskóla Íslands í dag. Þetta er ansi löng saga eða allt frá því sjö apótekarar stofnuðu Innkaupasamband apótekara (Pharmaco) í skugga hafta- og skömmmtunarstefnu í efnahagsmálum árið 1956 og þar til Actavis var orðið þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi með eitt þúsund milljarða króna árlega veltu.

Fyrirlesturinn verður haldinn nú í hádeginu í Hátíðasal háskólans. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.