*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 2. maí 2021 19:13

Úr takkaskóm í veiðivöðlur

Rut Kristjánsdóttir er nýr sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance. Fyrsti yfirmaður hennar í geiranum reyndist mikil fyrirmynd.

Jóhann Óli Eiðsson
Fyrsti yfirmaður Rutar í fjármálageiranum var ung kona og segir hún að það hafi aukið sjálftraust hennar og auðveldað valið að feta þessa slóð.
Eyþór Árnason

„Það er margt sem þarf að tækla í kjölfar niðursveiflunnar og verkefnið er í raun að aðstoða okkar viðskiptavini við að ná sem bestri niðurstöðu fyrir alla hlutaðeigandi,“ segir Rut Kristjánsdóttir um vistaskiptin. Hún hóf störf í upphafi mánaðar og er að eigin sögn spennt fyrir því að taka þátt í spennandi verkefnum sem framundan eru.

„Í kjölfar Covid er margt að gerast og gerjast, Covid-tíminn hefur verið brekka fyrir suma en tækifæri fyrir aðra á móti. Mörg félög hafa hug á að nýta nýtt vaxtaumhverfi til endurfjármögnunar, önnur stefna á samruna og enn aðrir hafa hug á að kaupa eða selja fyrirtæki. Þannig mín verkefni felast í slíkri aðstoð,“ segir Rut.

Fyrstu skref Rutar í þessum geira voru sem starfsnemi í fjármálaráðgjöf hjá Deloitte vorið 2017. „Þegar ég kom þangað inn, að verða 23 ára, var Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir nýtekin við stjórn fjármálaráðgjafarinnar. Það var ótrúlega dýrmætt fyrir mig, glænýja í fyrsta alvöru starfinu í þessum geira, að hafa þrítuga konu sem minn næsta yfirmann. Hún veitti mér mikið traust og gaf mér mörg tækifæri sem jók sjálfstraustið. Að hafa haft þessa fyrirmynd opnaði á að ég sá að þetta væri  ekki algjör karlageiri heldur vel einhver vegferð sem ég gæti farið á,“ segir Rut.

Hjá Deloitte kom Rut að vinnu jafnvægisvogarinnar, samstarfsverkefni FKA, Deloitte, Sjóvá, PiparTBWA og Morgunblaðsins, sem miðar að því að kynjahlutfallið verði 60/40 hið minnsta í efsta lagi stjórnunar íslenskra fyrirtækja árið 2027. „Þá gerði maður sér grein fyrir því að staðan væri ekkert sérstök en það er að breytast, þó það sé full hægt fyrir minn smekk samt. Fyrirtæki eru meðvitaðari um að fjölbreytileikanum fylgir oft ný sjónarmið og ferskir vinklar,“ segir Rut.

Frístundir Rutar voru áður mjög litaðar af knattspyrnuferli hennar. Sá hófst í Árbæ, þaðan lá leiðin til Vestmannaeyja, þar sem hún varð meðal annars bikarmeistari árið 2017, og endaði hjá Víkingi síðasta sumar.

„Þegar ég var í boltanum skipti mig miklu máli að vera góður liðsfélagi og gefa allt sem ég átti og hef ég fengið að heyra að það hafi verið betra að vera með mér í liði en ekki.  Maður reynir að heimfæra það eitthvað á starfið líka,“ segir hún og hlær. „Maður tekur keppnisskapið, mikilvægi góðra samskipta og agann með sér úr íþróttinni og lærir líka að forgangsraða tímanum sem maður hefur. Sumarið 2017, þegar ég byrjaði hjá Deloitte, var til að mynda mikið púsluspil. Þá var ég að flakka á milli úr vinnunni í bænum í æfingar og leiki á Eyjunni fögru, stundum oft í viku. Eftir á að hyggja skil ég ekki alveg hvernig það gekk upp.“

Skórnir eru núna komnir upp í hillu og sumarið því ekki undirlagt fótbolta. „Það hefur ekki verið erfitt að fylla upp í frítímann sem myndaðist við það. Ég hef til að mynda skráð mig í nokkur utanvegahlaup í sumar  og verið á golfnámskeiði.  Svo stefni ég á að verja meiri tíma úti í náttúrunni við árbakka með veiðistöng, í góðra vina hópi, sem ég hlakka mjög til,“ segir Rut að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.