Í dag eru tvö ferðaþjónustufyrirtæki skráð á markað. Það er Icelandair á aðalmarkaði og Play á First North. Þrjú félög gætu bæst í hópinn á næstunni, þó óvissa sé um skráningu eins þeirra vegna fyrirhugaðra eigendaskipta.

Stjórn Bláa lónsins hefur ákveðið að hefja undirbúning að því að skrá félagið í haust. Íslandshótel hefur sömuleiðis stefnt að skráningu og segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri hótelkeðjunnar, í samtali við Viðskiptablaðið að félagið stefni enn á markað um leið og aðstæður á markaði eru hagfelldar.

Í lok árs 2021 greindi Viðskiptablaðið frá því að Arctic Adventures stefndi á markað. Af því tilefni var Gréta María Grétarsdóttir ráðin forstjóri og átti hún að leiða verkefnið. Hins vegar hefur verið greint frá mögulegum eigendaskiptum hjá félaginu sem gætu haft áhrif á skráningaráformin.

Þannig greindi viðskiptamiðillinn Innherji frá því í byrjun árs 2023 að hópur fjárfesta, leiddur af Jóni Þór Gunnarssyni fyrrverandi forstjóra, væri að kaupa rúman 40% hlut í fyrirtækinu eftir að hafa nýtt sér forkaupsrétt og gengið inn í tilboð sem fjárfestingarfélagið PT Capital frá Alaska gerði í byrjun desember í fyrra. 

Spurð að því hvort möguleg eigendaskipti setji skráningaráformin í óvissu segir Gréta alltaf möguleika á stefnubreytingu með nýjum eigendum. „Í gildi er hluthafasamkomulag þar sem samkomulag er um að undirbúa skráningu. Ef það verður breyting í hluthafahópnum er alltaf möguleiki á því að hlutir breytist en það verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Gréta í samtali við Viðskiptablaðið.