Velta Útgerðarfélags Reykjavíkur hf., aðaleiganda Brims, var um 8,1 milljarður króna í fyrra og dróst saman um 17,4% en verðlækkun sökum minni eftirspurnar í faraldrinum litar afkomu ársins.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningi félagsins segir að stjórnendur félagsins hafi gripið til aðgerða til að mæta áhrifum heimsfaraldursins. „Má þar helst nefna aukna áherslu á nýsköpun og vöruþróun til að mæta minnkandi eftirspurn og styðja við áframhaldandi arðsemi á næstu árum. Þá hefur verið gripið til sóttvarnaraðgerða, en í þeim aðgerðum felst m.a. að sjómenn félagsins fóru í skimun fyrir veiðarferðir, starfsmenn á skrifstofu unnu mikið heima hjá sér og allur óþarfa umgangur á vinnustöðum takmarkarður,“ segir í skýrslu stjórnar.

Hagnaður ársins nam 954 milljónum króna á árinu, úr 4,7 milljörðum árið áður. Eignir félagsins námu 66,7 milljörðum króna í lok árs og þar af var eigið fé um 36 milljarðar.