„Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur lagði Helga Jónsdóttir, forstjóri OR, fram greinargerð sína til stjórnar fyrirtækisins um farveg ábendinga í úttektarskýrslu innri endurskoðunar. Fjallað var um ábendingarnar á sameiginlegum vinnudegi alls starfsfólks OR-samstæðunnar síðastliðinn fimmtudag. Afrakstur þeirrar vinnu skilaði sér í greinargerð Helgu til stjórnarinnar," þetta kemur fram í tilkynningu frá OR.

Stjórn OR sameinaðist um svohljóðandi bókun á fundinum í dag:

„Sú úttekt sem nú hefur farið fram á vinnustaðarmenningu og starfsmannamálum innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur bendir á ýmsar leiðir til að gera vinnustaðinn enn betri. Þótt úttektin staðfesti að innan Orkuveitunnar ríki góður starfsandi tekur stjórn OR þær ábendingar sem koma fram í úttektinni alvarlega og mun tryggja að við þeim verður brugðist með viðeigandi hætti.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þakkar innri endurskoðanda og þeim sérfræðingum sem hann kallaði til starfa fyrir úttektina og Helgu Jónsdóttur, forstjóra, fyrir þær úrbætur sem ýmist hafa þegar verið gerðar eða komnar eru í farveg.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur vill sérstaklega þakka starfsfólki fyrir góða þátttöku í greiningu á starfsanda innan samstæðunnar og þeirra mikilvæga þátt í að móta þær úrbætur sem fyrirhugaðar eru."

Ábendingar í úttektarskýrslunni og umbæturnar, sem Helga gerði grein fyrir, snúa að mannauðsmálum, stjórnháttum, jafnréttismálum, ráðningar- og starfslokaferlum, áreitni og einelti, vinnustaðarmenningu, áhættustjórnun og einstökum starfsmannamálum, sem eru á ábyrgð Orku náttúrunnar.