Félagið KTS ehf. hefur keypt Urðarhvarf 14 af 365 hf. en um er að ræða 4.800 fermetra skrifstofuhúsnæði í Kópavogi. KTS er í eigu Sturlu Björns Johnsen, Teits Guðmundssonar og Kristjáns M. Grétarssonar. Sturla og Teitur eru eigendur Heilsuverndar sem rekur heilsugæslustöð í Urðarhvarfi 14. Urðarhvarf var byggt á árunum 2007-2010 og fékk Urðarhvarf 8 viðurnefnið Kreppuhöllin þar sem húsnæðið stóð tómt um tíma.

Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, segir að engin breyting sé fyrirhuguð á starfseminni í húsnæðinu og að Heilsuvernd muni halda áfram að leigja í húsinu. Kaupverð er trúnaðarmál en 365 keypti Urðarhvarf 14 á síðasta ári fyrir tæplega 1,5 milljarða króna.

Seljandi var Byggingafélagið Framtak sem er í eigu verktakans Snorra Hjaltasonar. 365 er nær alfarið í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur fjárfestis. Til viðbótar við Urðarhvarf 14 á 365 atvinnuhúsnæði sem metin eru á yfir fimm milljarða króna. Til að mynda þúsund fermetra skrifstofubyggingu við Hverfisgötu og hótelbyggingu 101 Hótel.