*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 13. febrúar 2020 09:17

Urðu af árangurstengdri greiðslu

Skilyrði fyrir 12,7 milljarða króna árangurstengdri kaupverðsgreiðslu voru ekki uppfyllt og varð seljandi CCP af þeirri upphæð.

Ritstjórn
Hilmar Veigar Pétursson er forstjóri CCP.
Aðsend mynd

Tafir á útgáfu EVE Echoes í farsíma og EVE Online á PC í Kína urðu til þess að fyrrverandi eigendur CCP, það er Novator Partners, urðu af 100 milljóna dollara árangurstengdri greiðslu vegna sölunnar á CCP til suðurkóreska félagsins Pearl Abyss. Þetta kemur fram í tilkynningu frá CCP sem birt var í kjölfar birtingar á ársuppgjöri Pearl Abyss í kauphöll í Suður-Kóreu.

Pearl Abyss keypti CCP í október 2018 en þegar tilkynnt var um kaupin kom fram að kaupverð hefði verið 425 milljónir dollara eða um 46 milljarðar króna á gengi þess tíma. Samkvæmt fréttaflutningi þá var ótilgreindur hluti kaupverðsins árangurstengdur til tveggja ára.

Til að til árangurstengdrar greiðslu kæmi þurfti EBIDTA félagsins að ná að lágmarki 25 milljónum dollara. Fyrir hvern dollar umfram það bættust fjórir við kaupgreiðsluna. Hámark greiðslunnar hvort ár er 100 milljónir dollara, andvirði um 12,7 milljarða króna, það er bónusinn hættir að bætast við í 50 milljóna dollara EBITDA.

Sjá einnig: Endanlegt kaupverð CCP óvíst

„Stjórnendur CCP eru fullvissir um að markaðssetning EVE Echoes á Vesturlöndum og EVE Online í Kína geti hafist á þessu ári, sem mun fjölga spilurum umtalsvert og skila meiri tekjum á yfirstandandi rekstrarári,“ segir í tilkynningu. Þar segir enn fremur að vonir standi til að það náist að uppfylla skilyrði fyrir árangurstengdri greiðslu vegna ársins í ár.

„Við erum að upplifa gríðarlegan notendavöxt á sama tíma og við eigum enn stærstu trompin eftir á hendi. Þegar EVE Echoes og EVE Online verða gefnir út í Kína á þessu ári, þá mun það bæði færa okkur nýja tekjustrauma og fótspor EVE-heimsins verður líklega orðið margfalt stærra en það var áður en við fórum í þessa sókn til Asíu og hófum að gefa leikinn út á farsíma. Asía er að verða stærsti tölvuleikjamarkaður heims og þegar litið er til þess árangurs sem EVE hefur náð í Kóreu á síðustu mánuðum er ljóst að salan til Pearl Abyss var hárrétt ákvörðun.

Pearl Abyss er með skýra langtímasýn á hvers konar leiki CCP getur sent frá sér og hefur öðlast djúpa innsýn í ferla og markmið fyrirtækisins okkar. Einhver sagði að fjölspilunarnetleikir séu eins og gott viský, þeir verði bara betri með aldrinum. Núna er leikurinn okkar að verða nógu gamall til að stór hluti leikjaspilara í heiminum vilji drekka hann og með nýju útgáfunum og samstarfi við leikjafyrirtæki sem skilja hvað CCP gerir og hverju CCP vill ná fram sem leikjaframleiðandi verður aðgengið að honum betra en nokkru sinni fyrr,“ er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni, forstjóra CCP, í tilkynningunni.