Alþjóðabankinn hefur fært niður hagspá sína fyrir hagvöxt innan þróunarríkjanna á þessu ári. Nú er gert ráð fyrir því að hagvöxtur verði 4,8% í stað 5,3%. Gangi það eftir þá verður þetta þriðja árið í röð sem hagvöxtur verður undir 5%. Rök bankans fyrir hagspánni eru þau að þróunarríkin verði að gera bragabók á efnahagsmálum sínum sem styðji betur við atvinnusköpun og hagvöxt en nú.

Breska útvarpið ( BBC ) segir árangur ríkjanna einkennast af vonbrigðum á þessu ári. Helstu þættirnir sem draga hagspánna niður eru afleiðingar af átökunum í Úkraínu, slæmt veður í Bandaríkjunum og aðrir neikvæðir þættir. Betri horfum er spáð strax á næsta ári en þá er gert ráð fyrir 5,5% hagvexti innan þróunarríkjanna. Efnahagsbati í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu mun svo styðja við bættar horfur í þróunarríkjunum, að því er BBC hefur upp úr hagspánni.