Helga Valfells hefur gegnt starfi framkvæmdarstjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá marsmánuði 2010. Hún segir bankahrunið hafa snert Nýsköpunarsjóð atvinnulífins mjög lítið. „Ef við horfum á fyritækin okkar þá hafa þau flest lítið orðið vör við hrunið. Þetta eru fyrirtæki sem ekki eru með nein lán og flest öll með útflutningstekjur og eru í tæknigeiranum. Tæknigeirinn hefur ekki orðið mikið var við heimskreppuna og má þar nefna að Apple er eitt verðmætasta fyrirtækið í heiminum í dag. Fyrirtæki kaupa tæknilausnir til að hagræða og hrunið hefur ekki haft neikvæð áhrif á fyrirtæki í tæknigeiranum,“ segir Helga og bætir við að fyrirtækið Gagnavarslan hafi sýnt gífurlegan vöxt á innlendum markaði eftir hrun.

Helga segir að mikilvægt sé fyrir Ísland á þessum síðustu og verstu tímum að fjárfest sé í nýsköpun. „Ég tel það mikilvægt að vera með öfluga virðiskeðju sem getur fjárfest á öllum stigum nýsköpunnar. Við erum bara á þessu ákveðna stigi og síðan þurfum við sjóði með okkur sem koma á eftir okkur. Ég held að það gæti orðið mjög mikilvægt hlutverk fyrir lífeyrissjóðina að fjárfesta í nýsköpun með okkur. Þeir eiga með okkur í Frumtaki og ég vil sjá meira af því. Nýsköpun er besta leiðin til vöruþróunar, atvinnu- og gjaldeyrissköpunar. Ef við ætlum að skapa varanlegan hagvöxt inn í framtíðina þá er þetta besta leiðin til þess. Hér er verið að búa til verðmæti ekki færa þau fram og til baka.“

Ítarlegra viðtal við Helgu Valfells má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.