Einar K. Guðfinnsson sagði í ræðu sinni á Búnaðarþingi úrelt að tala um hefðbundinn og óhefðbundin landbúnað.

„Þessi skil eru í besta falli óljós og sennilega ekki til nema að litlu leyti. Landbúnaðurinn einkennist nefnilega af mikilli fjölbreytni. Í hugum þeirra sem standa utan við landbúnaðinn koma sjálfsagt oftast nær fyrst upp í hugann mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt, þegar orðið landbúnaður er nefnt. Það er hins vegar ekki rétt mynd af íslenskum landbúnaði, þó að bændur geti sannarlega verið stoltir af þeim atvinnugreinum sínum. Landbúnaðurinn stendur undir fjölbreyttri atvinnustarfsemi í sveitum landsins sem ekki er hægt að gera allri skil í stuttu máli hér,“ sagði Einar í ræðu sinni.

Hann sagði gríðarlegan vöxt hafa orðið í skógrækt vítt og breitt um landið og fjöldi bænda og fjölskyldur þeirra hafi afkomu sína af slíkri iðju.

Þá sagði Einar frístundarbyggð vera að aukast í sveitum landsins.

„Í ýmsum héruðum eru slík hlunnindi, t.d. á borð við veiðihlunnindi, orðin helsta tekjuöflunin á mörgum jörðum. Starfsemi garðyrkjunnar vex jafnt og þétt og hafa stjórnvöld átt þátt í þeirri þróun, meðal annars með niðurgreiðslu á  raforku. Það ásamt fleiru hefur átt sinn þátt í að stórauka framleiðsluna sem íslenskum neytendum fellur vel í geð.  Ferðaþjónusta í sveitum er fyrir löngu orðin stór atvinnugrein sem skapar störf um land allt.  Sama má segja um rekstur frístundabyggða, stórra og smárra. Atvinnugreinar á borð við loðdýrarækt sem áttu lengi undir högg að sækja, sjá nú nýja og vaxandi möguleika með hækkandi verði og aukinni eftirspurn. Tvöföld búseta og atvinnusókn úr dreifbýli í þéttbýli í krafti bættra samganga og nýjustu fjarskiptatækni eykur enn fjölbreytnina í flóru íslensks landbúnaðar,“ sagði Einar.

Að lokum nefndi Einar hestamennsku og hrossarækt og sagði hana fyrir margt löngu orðna veigamikinn þátt í landbúnaði. Hann sagðist ætla að einbeita sér að eflingu og sókn bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Þá sagði hann nefnd vera að endurskoða markaðsstuðning og frekari kynningu á íslenska hestinum.

Einar sagði að með vaxandi fjölbreytni þyrfti landbúnaðurinn að tileinka sér nýjustu tækni og fjárfestingu sem henni fylgir. Hann sagði nauðsynlegt að bændur hagræði í rekstri sínum og sú hagræðing fæli í sér ný tækifæri en væri ekki ógn við landbúnaðinn.

„Þvert á móti er landbúnaðurinn í margs konar samkeppni um fólk og fjármagn og í samkeppni við innfluttar matvörur ýmis konar og þarf þess vegna að beita öllum úrræðum til að hagræða og lækka kostnað, jafnframt því að hafa vakandi auga með möguleikum á auknum tekjum og nýjum og betri sóknarfærum.  Hvað sem hver segir er landbúnaðurinn í deiglu íslensks samfélags og verður mótandi um framtíð þess."