*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 11. nóvember 2019 15:36

Úrelt gögn á bak við sykurskattstillögur

Félag atvinnurekenda ítrekar að tillögur Landlæknis um upptöku sykurskatts séu byggðar á úreltum gögnum.

Ritstjórn
Tillögur Landlæknis um upptöku sykurskatts byggja á röngum gögnum að mati Félags atvinnurekenda.
Hörður Kristjánsson

Félag atvinnurekenda (FA) hefur skrifað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra bréf þar sem félagið bendir á að tillögur Landlæknisembættisins um upptöku sykurskatts séu byggðar á „gömlum, úreltum og/eða röngum gögnum“. Greint er frá þessu á vef FA þar sem jafnframt segir að ráðuneytinu hafi ítrekað verið bent á rangfærslur í gögnunum. Ráðuneytið hafi hins vegar hvorki svarað ábendingum félagsins né sinnt óskum framleiðenda gosdrykkja um samtal um málið. 

Tilefni bréfsins eru fréttir um að ráðherra hafi stofnað starfshóp til að útfæra tillögur um sykurskatt. Auk þess að rekja efni fyrri bréfa og ábendinga FA þá bíður félagið fram starfstarf við ráðuneytið og stofnanir þess um að tryggja að vinna stjórnvalda byggi á réttum gögnum um sykurneyslu. 

„Í maí í fyrra, er viðraðar voru tillögur Landlæknisembættisins um sérstakan gosskatt, ritaði félagið ráðherra bréf og vakti athygli á því að Landlæknisembættið vitnaði til 7-8 ára gamalla gagna Hagstofunnar, sem ættu að sýna að þriðjungur af neyslu viðbætts sykurs kæmi úr gosdrykkjum. FA gagnrýndi bæði að notuð væru gömul gögn og auk þess dregnar af þeim hæpnar ályktanir. Félagið vísaði til nýrra og áreiðanlegra gagna, sölutalna sem Markaðsgreining/AC Nielsen tekur reglulega saman og sýna að innan við fimmtungur sykurneyslu Íslendinga kemur úr gosdrykkjum. FA benti á að Landlæknisembættið hefði ekki sinnt óskum framleiðenda og innflytjenda gosdrykkja um samtal um það hvernig megi tryggja að gögn, sem embættið byggir tillögur sínar á, séu rétt,“  segir í fréttinni á vef FA.