Hinn 1. janúar 2009 tekur gildi það ákvæði í lögum um íslenskan ríkisborgararétt að umsækjandi skuli hafa staðist próf í íslensku.

Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur gefið út reglugerð um prófin sem tekur gildi um áramótin. Samkvæmt henni er ráðgert að Námsmatsstofnun eða annar sambærilegur aðili annist undirbúning og framkvæmd prófanna sem haldin verða að minnsta kosti tvisvar á ári.

Þetta kemur fram í vefriti dómsmálaráðuneytisins í dag.

Þar kemur fram að þeir umsækjendur sem hafa lagt fram umsókn í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir 1. janúar 2009 ásamt öllum tilskildum fylgigögnum, og fullnægja á þeim tímapunkti þeim skilyrðum laga um íslenskan ríkisborgararétt sem í gildi eru fyrir áramót, þurfa ekki að gangast undir íslenskupróf.

Í vefritinu er þó vakin athygli á því að þótt umsækjandi hafi áður fengið búsetuleyfi og lokið íslenskunámi eða prófi vegna þess leyfis þarf hann engu að síður að undirgangast íslenskupróf vegna umsóknar um ríkisborgararétt. Skilyrði útlendingalaga varðandi búsetuleyfi og íslenskunámskeið eða stöðupróf eru áfram í gildi.

Í reglugerðinni er kveðið á um framkvæmd og efni prófs, sem og um undanþágur ef telja verður ósanngjarnt að gera þá kröfu til umsækjanda að hann þurfi að taka próf. Það getur meðal annars átt við ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri og átt lögheimili hér á landi síðustu sjö ár áður en umsókn er lögð fram, eða ef umsækjandi er í íslenskum grunnskóla eða undir grunnskólaaldri.