Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, segir að það hafi ekki verið mikið rætt innan forsætisnefndar þingsins að þingmenn gerðu einnig grein fyrir skuldum sínum og fjárhagslegri stöðu maka.

Nefndin hefur samþykkt reglur um að alþingismenn birti opinberlega fjárhagslega hagsmuni sína.

Guðbjartur segir að það hafi verið reynt að fara þessa fínu línu á milli þess að hnýsast í persónuleg mál og að birta almennar upplýsingar um það hvort þingmenn hefðu til dæmis notið fyrirgreiðslu umfram kjör í bönkunum. Reglurnar gilda frá og með 1. maí 2009.

Sigríður Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur birt upplýsingar um eignir og skuldir á vef sínum, sem og fjárhagslega stöðu maka.

„Ef menn ætla á annað borð að birta eitthvað svona er tilgangslaust að birta ekki skuldastöðu,“ segir hún meðal annars.

Þingmaður eða ráðherra geti til dæmis hugsanlega verið vanhæfur til að fjalla um sérstakar aðgerðir í þágu heimilanna sé sá hinn sami með neikvæða eignastöðu, stór íbúðalán eða gjaldeyrislán. Það að greina eingöngu frá eignum upplýsi hins vegar ekkert um mögulegt vanhæfi.

Sigríður segist mótfallin því að innleiða umræddar reglur í lög eins og hugmyndir eru um. Hún hafi þó talið rétt að birta upplýsingar um stöðu sína í ljósi þess árferðis sem nú ríki.