Seðlabanki Íslands hefði tapað veði sínu í hinum danska FIH ef ekki hefði verið gengið frá sölu hans um síðustu helgi. Dönsk yfirvöld höfðu tilkynnt að hlutafé yrði fært niður að öllu leyti og FIH yfirtekinn ef það gerðist ekki.

Eign íslenskra aðila í danska bankanum FIH Erhversbank A/S (FIH) hefði orðið að engu ef ekki hefði tekist að selja hann fyrir síðasta þriðjudag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

í bankanum. Dönsk yfirvöld höfðu komið þeim skilaboðum til Seðlabanka Íslands, sem átti allsherjarveð í FIH, að ef ekki væri búið að selja bankann fyrir þann fund myndi allt hlutafé í honum verða skrifað niður, hann yrði yfirtekinn af danska fjármálaeftirlitinu (Finanstilsynet), færður undir dönsku bankasýsluna (Finansial Stabilitet) og íslenskir aðilar væru þar með búnir að tapa allri eign sinni í bankanum. Bankaráði Seðlabanka Íslands verður væntanlega gerð grein fyrir sölunni og aðdraganda hennar á fundi þess klukkan hálf fjögur í dag (fimmtudag).

Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að einungis annað þeirra kauptilboða sem lagt var fram í FIH hafi verið gilt. Hitt hafi ekki uppfyllt kröfur og því ekki hægt að ganga að því.

Lífeyrissjóðir keyptu

Gengið var frá samningum um sölu á 99,89% hlut í FIH síðastliðinn laugardag. Kaupendurnir var fjárfestingahópur sem samanstendur af dönsku lífeyrissjóðunum ATP og PFA, sænska tryggingafélaginu Folksam og fjárfestinum Christian Dyvig. Hluturinn hafði áður verið í eigu skilanefndar Kaupþings en var veðsettur að fullu Seðlabanka Íslands til tryggingar á þrautavaraláni sem bankinn veitti Kaupþingi í október 2008 upp á 500 milljónir evra. Innifalið í kaupsamningnum er að ATP veiti FIH lánalínu upp á 10 milljarða danskra króna, um 200 milljarða íslenskra króna.

-Nánar í Viðskiptablaðinu.