Lárus Welding dregur ekki dul á það að íslenska hagkerfið og íslenska bankakerfið sigli erfiðan sjó um þessar mundir og hann telur sömuleiðis að ekki sjái í bili fyrir endann á því erfiða ástandi sem verið hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og í hagkerfum heimsins.

„Ástandið er erfitt og ég er á þeirri skoðun að sennilega muni það vara út árið 2009. Ég held að það fari ekki að rofa almennilega til og eðlilegt ástand að komast á markaðina fyrr en fasteignaverð vestur í Bandaríkjunum hættir að lækka. Að vísu finnst mér ástandið þó aðeins farið að róast og sveiflurnar farnar að minnka en það breytir því ekki að við hér hjá Glitni metum stöðuna með þessum hætti og stýrum rekstri bankans samkvæmt því,“ segir Lárus.

Lárus dregur heldur ekki dul á að langvarandi hátt skuldtryggingaálag á íslensku bankana og á íslenska ríkið séu skaðleg, ekki bara íslensku bönkunum heldur íslenska hagkerfinu í heild. Því sé það verkefni allra að reyna að leysa þann vanda og endurvinna traust á erlendum vettvangi. „Það á vissulega að vera markmið allra hér að reyna að ná skuldatryggingaálaginu niður, það er sameiginlegt verkefni okkar allra, ríkisins, bankanna og atvinnulífsins.

Við erum öll á sama báti hvað þetta varðar og því er mikilvægt að menn séu ekki að sóa kröftum sínum í það að kasta steinum hver í annan. Það er staðreynd að erlendir lánveitendur horfa á Ísland sem eina heild og þess vegna er líka nánast fullkomin fylgni á milli þróunar skuldatryggingaálagsins á íslenska ríkið, Glitni, Kaupþing og Landsbankann. Það skiptir þess vegna afar miklu máli að erlendir aðilar sjái að íslenskir aðilar séu samstiga í því að vinna bug á þeim vanda sem við er að glíma.

Við höfum vissulega tekið mikið erlent fé að láni, bæði íslensku bankarnir og Ísland sem hagkerfi, og nú þurfum við að axla þá ábyrgð sem því fylgir og sýna fram á hvernig við ætlum okkur að greiða þessi lán til baka.“

______________________________________

Lesa má viðtalið í heild í helgarblaði Viðskiptablaðsins.  Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .