Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist sjá fyrir sér að staðið verði við viljayfirlýsinguna er varðar uppbyggingu orkufreks iðnaðar áNorðurlandi. Mikill áhugi sé á svæðinu og tækifærin mikil og vinna starfshóps um verkefnið hafi leitt það í ljós að þau sé jafnvel meiri en reiknað hafi verið með.

„Ég hef alltaf sagt að það skiptir miklu máli að koma þeirri raforku sem er á svæðinu, sem er núna a.m.k. yfir hundrað megavött, í vinnu og það fyrr en seinna. Mikil fjárfesting hefur verið lögð í verkefnið nú þegar, bæði af hálfu Landsvirkjunar og sveitarfélaganna á Norðausturlandi, og það skiptir miklu máli að vinna hratt að þessu. Það væri auk þess ákjósanlegt ef það væri hægt að fá fleiri en einn kaupanda að orkunni á svæðinu, en það er vitaskuld nokkuð sem skoðað er í þessari vinnu.“

Næsta stóra verkefni Katrín segist líta til Þeistareykjasvæðisins og jarðhitasvæða í nágrenninu sem næsta stóra vettvangs fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi.

„Það er mikið í húfi hvað þessi mál varðar og væntingarnar til þessa svæðis eru miklar. Það er verið að skoða hvernig best er að haga fjármögnun virkjana á svæðinu, samhliða annarri vinnu, og þá Þeistareyki, Bjarnarflag og Kröflu, jafnvel saman í einu félagi. Landsvirkjun mun alltaf leiða starfið hvernig sem fer en það kemur vel til greina að fá aðra fjárfesta með í verkefnin. Ég tel að það sé mjög spennandi kostur, ekki síst núna þar sem vaxtakjör á lánum sem bjóðast eru þannig að arðsemin yrði lítil sem engin ef virkjanir eru fjármagnaðar með lánum að öllu leyti. Við þurfum eigið fé inn í verkefnin,“ segir Katrín.

Hún segir jafnframt að eftir á að hyggja hefði það verið skynsamlegra að fjármagna virkjanir með þessum hætti í meira mæli, þar á meðal Kárahnjúkavirkjun en orka þaðan er seld til álvers Alcoa á Reyðarfirði og er stærsta einstaka framkvæmd opinbers orkufyrirtækis hér á landi.

„Að mínu mati hefði átt að vera sérstakt félag í kringum Kárahnjúkavirkjun þar sem verkefnafjármögnun utan um þess háttar verkefni hentar betur og getur skilað meiri arðsemi vegna minni fjármagnskostnaðar til lengri tíma.“