Fasteignafélagið Urriðaholt hagnaðist um 384 milljónir króna árið 2020 miðað við 876 milljónir króna árið áður.

Félagið er að meirihlutaeigu í eigu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa sem á 65% hlut á móti 35% hlut bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona. Það fé sem rennur til Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa er nýtt til margskonar góðgerðarmála.

„Þetta er unnið í þeim anda að koma landinu í verðmæti sem skapar höfuðstól fyrir starf okkar í reglunni. Við erum að vinna að fjölda líknar- og góðgerðamála þar sem við látum gott af okkur leiða í samfélaginu,“ sagði Guðmundur Eiríksson, stórsír Oddfellowreglunnar, í umfjöllun um félagið í Viðskiptablaðinu í janúar.

Sjá einnig: Stórfé í góðgerðamál úr Urriðaholti

Félagsmenn í Oddfellow reglunni eignuðust landið í Urriðaholti í Garðabæ árið 1946. Árið 2005 var félagið Urriðaholt ehf. stofnað um sölu lóða í nýju hverfi í Urriðaholti. Síðan þá hefur hagnaður félagsins samanlagt numið um 3,2 milljörðum króna og hlutdeild Styrktar- og líknarsjóðsins í hagnaðinum nemur ríflega 2 milljörðum króna.

Félagið greiddi 500 milljónir króna í arð í fyrra og lagt er til að aðrar 500 milljónir króna verði greiddar í arð vegna starfsemi síðasta árs. Eignir félagsins námu 2,6 milljörðum króna í lok árs 2020, og eigið fé 2,2 milljörðum króna.