Samkaup hf. hefur ákveðið að efla starfsemi innkaupadeildar fyrirtækisins. Liður í þeirri breytingu er að starfsemi þurrvörudeildar Búrs mun flytjast úr Bæjarflöt 2, Reykjavík til Keflavíkur og verða hluti af nýrri Innkaupadeild Samkaupa hf.

Innkaupadeild Samkaupa mun hafa með höndum öll innkaup fyrirtækisins ásamt eftirliti með birgðahaldi og dreifingu. Forstöðumaður Innkaupadeildar verður Sigurður Á. Sigurðsson með starfsstöð í Keflavík og taka breytingarnar gildi 1.mars nk.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að birgðahald fyrir þurrvöru verður eins og hingað til hjá Samskipum við Kjalarvog. Innflutningi og innkaupum á þurrvörulagerinn verður áfram stýrt af Kristjönu Pálsdóttur, en hún flytur starfstöð sína til skrifstofu Samkaupa í Keflavík.

Búr ehf. mun áfram starfa við innflutning og dreifingu ávaxta og grænmetis og verður starfsemin áfram staðsett í Bæjarflöt 2, Reykjavík og mun Kolbeinn Ágústsson verða rekstrarstjóri þar.